Gummi Kíró er kunnuglegt nafn á flestum heimilum landsins en hver var hann áður en hann varð kírópraktor stjarnanna og einn helsti tískusérfræðingur landsins?
Gummi bjó víða um landið þegar hann var yngri. Hann fæddist á Ísafirði og bjó fjölskyldan um tíma í Bolungarvík, á Selfossi, í Reykjavík og Danmörku. Lengst var hann á Hornafirði þar sem hann varði unglingsárunum.
„Þetta var mjög hefðbundið fjölskylduuppeldi. Við erum fimm systkinin og mamma var mestmegnis heimavinnandi þannig það var vel haldið utan um mann, sem var bara fínt,“ segir hann í þættinum.
Þegar hann var um sautján til átján ára flutti hann í höfuðborgina og hóf nám við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Árið 2006 flutti hann til Svíþjóðar til að læra kírópraktorinn.
„Ég er mjög hrifinn af því að vera í stóru samfélagi, ég þrífst best þannig. Eins yndislegt og það var að alast upp út á landi, ég kunni að meta það mikið […] Þá fann ég það fljótt að svona lítið samfélag átti kannski ekki við mig, mér finnst þægilegra að vera í stærra samfélagi, meira líf og meira af tækifærum í hinu og þessu. Ég fíla mig vel í Stokkhólmi og París, þannig ég finn mig mikið á slíkum stöðum og sé mig svolítið í framtíðinni þar.“