Hávær umræða um hinsegin fræðslu og kynfræðslu í grunnskólum landsins hefur varla farið framhjá nokkrum manni og á samfélagsmiðlum má sjá að mörgum er heitt í hamsi vegna málsins. Þeir sem hafa kynnt sér málið sjá þó fljótt að fjölmargir vaða villu vegar og telja jafnvel að Samtökin 78 séu að sinna kynfræðslu í gunnskólum landsins. Svavar Knútur Kristinsson, tónlistarmaður og fyrrverandi fjölmiðlamaður, skrifaði athyglisverðan pistil á Facebook-síðu sinni þar sem að hann líkir þessum samfélagsmiðlastormi við Lúkasarmálið fræga.
Hafa skal í huga að það séu þrenns konar mál til umræðu, en fólk hefur átt það til að blanda þeim saman.
Í fyrsta lagi er það hinsegin fræðsla í skólum á vegum Samtakanna ’78, í öðru lagi er það kynfræðslubókin Kyn, kynlíf og allt hitt sem er ætluð börnum frá 7 til 10 ára. Og í þriðja lagi eru það veggspjöld ætluð unglingum á vegum Reykjarvíkurborgar í tilefni Viku6.
Þessi þrjú mál eru aðskilin og hafa ekkert að gera með hvort annað. Reykjarvíkurborg leiðrétti rangar staðhæfingar um veggspjöldin og má lesa það hér.
Sjá einnig: Umræðan um hinsegin fræðslu á suðupunkti
Svavar Knútur Kristinsson, tónlistarmaður og fyrrverandi fjölmiðlamaður, líkir misskilningnum og rangfærslunum í kringum þessi mál við Lúkasarmálið svokallaða.
Hann skrifaði pistil á Facebook sem hefur vakið mikla athygli, yfir 650 manns hafa líkað við hann og yfir 350 manns hafa deilt honum þegar fréttin er skrifuð.
„Ef þú heldur einlæglega að Samtökin 78 séu að kenna leikskólabörnum í Garðabæ að þau séu “hán” og almennt að kenna krökkum á yngsta stigi grunnskóla hvernig þau eigi að fróa sér og stunda BDSM, þá getur verið að þú hafir lent í því að trúa lygaáróðri og sért jafnvel byrjuð/aður að dreifa honum, eðlilega, þar sem þú hlýtur að vera í sjokki.
En ekki hafa áhyggjur. Þetta er auðvitað pínleg aðstaða, en alveg eins og með píramídaskemu og keðjubréf og Nígeríusvindlara, þá er hægt að komast út úr þessu á einfaldan hátt. Það er tvennt í stöðunni; eitruð þvermóðska og stolt eða kærleikur og auðmýkt. Og ef þú velur kærleikann og auðmýktina ertu á réttri leið.
Tilbúin/n? Ok hér eru einfaldar þriggja skrefa leiðbeiningar fyrir þig.
1: Steinhættu að dreifa þessu rugli.
2: Viðurkenndu, þó ekki nema bara fyrir sjálfum/sjálfri þér, að þú féllst fyrir lygasögu. Alveg eins og fyrsta apríl eða óheiðarlegum bílasala.
3: Eyddu öllum deilingum þínum á lygasögum úr Garðabæ og fölsuðum “stefnum úr menntamálaráðuneytinu”. Steinþegjandi og hljóðalaust. Og kyngdu því að þú féllst fyrir ógeðslegu lygamakki eins og svo fjölmargir á undan þér. Þú þarft ekkert að segja. Bara þreyja vandræðaleikann og skömmina yfir eigin auðtrúanleika, sem þegar þú hugsar um það, bliknar miðað við þá skömm sem LGBTQ+ fólk hefur þurft að sitja undir, svona almennt.
Þetta er nýja Lúkasarmálið og matseðillinn úr lyftunni í Furugerðinu. Hver man ekki eftir matseðlinum sem reyndist vera kvöldhressingalisti fyrir þá sem vildu?
Eina leiðin til að leiðrétta þetta rugl er að fólk sé tilbúið að bakka og viðurkenna eigin breyskleika og það að það er ekki alltaf með allt á hreinu. Þú ert ekki ein/n. Ég hef fallið fyrir kjaftæði. Ég hef þurft að loka á raðlygara í mínu lífi eftir að hafa fallið of oft fyrir kjaftæðinu í viðkomandi. Það var erfitt að kyngja því að ég hafi látið ljúga að mér, en það margborgaði sig.
Elska ykkur.“
Að lokum segir Svavar Knútur.
„Trans fólk er fólk. Trans konur eru konur, trans karlar eru karlar og [kynsegin] (e. Non-Binary) fólk er gilt eins og það er.
Ég er miðaldra hvítur karl. Þetta er ekkert erfitt. Allt sem þarf er kærleikur.“
Sjá einnig: Katrín bregst við umræðunni um hinsegin fræðslu í skólum – „Þess vegna er fræðsla um þessi mál mikilvæg“