Sævar Þór Jónsson, lögmaður, minnist í grein á Vísi baráttunnar gegn HIV veirunni, hér á landi, á níunda áratug síðustu aldar og réttindabaráttu samkynhneigðra á þeim tíma og síðar meir.
Sævar ritar greinina í tilefni af því að um nýliðna helgi var þess minnst að 40 ár eru síðan fyrsta HIV-smitið greindist hér landi.
Í frétt Vísis kemur fram að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagðist við það tækifæri harma þær þjáningar og erfiðu lífsreynslu sem HIV-smitaðir og ástvinir þeirra upplifðu á þessum árum þar sem vanþekking og fordómar hafi verið allsráðandi í samfélaginu. Framkvæmdastjóri HIV-Ísland, Einar Þór Jónsson, sagði við Vísi að íslensk stjórnvöld ættu að biðjast afsökunar á framgöngu sinni gagnvart HIV smituðum hér á landi.
Sævar Þór segir, í grein sinni, brýnt að minnast þeirra sem ruddu brautina fyrir hinsegin fólk á Íslandi, þeirra sem sjaldan og jafnvel aldrei sé minnst á. Það séu þeir sem féllu fyrir alnæmi.
Sævar segir að þegar HIV-veiran fór fyrst að gera vart við sig hafi réttindabarátta hinsegin fólks verið skammt á veg komin. Fylgifiskur veirunnar, sjúkdómurinn alnæmi, hafi ýtt undir fordóma í garð samkynhneigðra sem þegar hafi átt undir högg að sækja í baráttunni fyrir tilverurétti sínu.
Sævar segir að kerfislæg andstæða við samkynhneigð bæði hér á landi og erlendis hafi átt mikinn þátt í að víða voru stjórnvöld treg til að grípa til forvarna eða forvirkra aðgerða í upphafi. Hinir veiku hafi oft þurft að fela veikindi sín og fengið gloppótta þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Hann ber viðbrögðin saman við viðbrögðin við Covid-19 faraldrinum og segir að hefðu viðbrögðin verið sambærileg þá hefði sagan og afleiðingarnar orðið aðrar.
„Það var ekki fyrr en að aðstandendur sjálfir, samfélag samkynhneigðra og einstaka heilbrigðisstarfsmenn fóru að taka málin í sínar eigin hendur að stjórnvöld tóku loks á sig rögg. Það rann upp fyrir yfirvöldum að til þess að geta tekið á faraldrinum þá þurfti að viðurkenna tilverurétt og réttindi þessa samfélagshóps. Því miður var það nokkrum árum of seint og skaðinn orðinn mikill þegar horft er á þau mannslíf sem glötuðust, fyrir utan þau fjölmörgu mannréttindabrot sem þessi hópur þurfti að þola.“
Sævar bætir því við að séu sögur þessara manna og fjölskyldna þeirra skoðaðar sé ljóst hveru þungt fórnir þeirra vega á framþróun réttinda samkynhneiðgra. Það hafi verið áralöng barátta þessa fólks við heilbrigðiskefið og samfélagið sem að lokum skilaði því að stjórnvöld hafi farið að sjá hlutina í réttu ljósi. Það sé orðið löngu tímabært að þessi saga fái sitt réttmæta uppgjör eins og á öðrum sviðum þar sem stjórnvöld hafi brugðist þeim sem þurftu á aðstoð og stuðningi að halda.
„Þessa sögu verður að skoða í réttu ljósi og við sem samfélag og hið opinbera að viðurkenna mistökin sem voru gerð en um leið sýna þeim sem fórnuðu öllu, þar á meðal lífi sínu, þá mannlegu virðingu sem samtíminn neitaði þeim um en þeir áttu svo sannarlega skilið.“
Að lokum setur Sævar fram þá ósk að þessa hóps sem barðist fyrir aukinni meðvitund um HIV, bættri þjónustu við smitaða og auknum réttindum samkynhneiðgra á upphafsárum HIV-faraldursins verði veittur verðskuldaður heiður og og jafnvel reistur minnisvarði eða önnur opinber viðurkenning.