Óþægilegt myndband sem sýnir stórstjörnuna Taylor Swift eiga erfitt með andardrátt á sviði fer nú sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum. Myndbandið af söngkonunni, sem tekið er af tónleikum hennar í Ríó de Janeiro í Brasilíu á föstudaginn, hefur vakið mikla athygli í ljósi þess að aðdáandi hennar, 23 ára kona, fór í hjartastopp á sömu tónleikum, vegna gríðarlegs hita, og lést. Rannsókn á andláti aðdáandans stendur yfir en í kjölfarið frestaði Taylor Swift öðrum tónleikum sínum sem áttu að fara fram í gær, laugardag.
Taylor Swift struggled to breathe during her concert in Brazil. #RioTSTheErasTour pic.twitter.com/6Kxxyc4j8f
— Pop Hive (@thepophive) November 19, 2023
Gríðarleg hitabylgja gengur nú yfir Ríó de Janeiró og nærliggjandi svæði og hefur hitinn víða farið yfir 40 gráður á celsíus. Swift hafði verulega áhyggjur af aðdáendum sínum á föstudagstónleikunum og stöðvaði nokkrum sinnum atriði sitt til þess að mælast fyrir um að tónleikagestum yrði fært vatn.