Veitingamaðurinn og málarinn Jóhannes Felixson, þekktur sem Jói Fel, svarar fyrir sig og skorar á alla þá sem hafa haft eitthvað að segja um gjafagjörning hans að styðja við Grindvíkinga.
Fyrr í dag fjallaði DV um skiptar skoðanir netverja varðandi uppboð Jóa á málverki sem hann málaði af Grindavík. Hann sagði að helmingur söluverðsins myndi renna til Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.
Sumir hrósuðu málaranum á meðan aðrir gagnrýndu hann fyrir að gefa ekki alla upphæðina.
Umtalið fór ekki framhjá Jóa sem tjáði sig um málið á Facebook.
Hann sagðist hafa gaman af því að mála og stundum gera smá góðverk.
„En því miður virðist þetta eina prósent af fólki í landinu sem þarf að finna að öllu, sem ég geri eða geri ekki, skýla sér í kommentakerfinu. Fyrir mér var þetta aðallega hugsað að gleðja og styrkja. Ég hefði ekkert þurft að gera þetta frekar en aðrir málarar, en mig langaði að gera eitthvað og þetta get ég gert.
Fyrir um tveimur vikum síðan var ég með myndir á uppboði fyrir íþróttadeild Grindavíkur sem seldustu fyrir tæpa eina miljón og tók ég rúmlega 100 þúsund af því í kostnað hjá mér. Þetta er ekki eitthvað sem ég hef haft þörf fyrir að státa mér af, en þetta er mitt áhugamál og mér finnst gaman að gera einnig eitthvað gott með það.
Er ekki kominn tími núna fyrir okkur öll að standa saman fyrir Grindvíkinga og styðja þá í stað þessa að eyða tíma í að skjóta og drulla yfir aðra sem eru þó að reyna gera eitthvað.
Ég skora á alla aðila sem hafa skoðun á hversu mikið eða lítið ég hef gefið, að styðja við Grindvíkinga, við öll getum gert eitthvað, skrifað eitthvað fallegt eða sýnt að við berum umhyggju, gefið hluti eða styrkt og sleppt því að metast um hver gefur hvað. Það er jú tjáningarfrelsi í landinu en það virðist stundum gleymast að því fylgir einnig tjáningarábyrgð. Verum öll fyrirmyndir #égstyðgrindavík“