fbpx
Föstudagur 13.júní 2025
Fókus

Maggi gnúsari tilkynnti um sjálfsvígstilraun á Facebook – „Þá koma þessar ljótu hugsanir um að ég sé ekki nógu góður“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 11. nóvember 2023 08:00

Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir um fjórum árum greip Magnús Sigurbjörnsson – öðru nafni Maggi gnúsari – til þess örþrifaráðs að tæma lyfjaglas, í því skyni að enda líf sitt. En þó að hann gæti ekki þolað sársaukann sem tilveran lagði á hann þá þráði hann samt að sér yrði bjargað og þess vegna greindi hann frá því sem hann hafði gert í stöðufærslu á Facebook. Einhverjir vinir hans brugðust skjótt við og sendu sjúkrabíl heim til Magga og tókst að flytja hann á sjúkrahús og dæla upp úr honum lyfjunum í tíma.

Þessi þjáning varð upphafið að betri tímum í lífi Magga því í kjölfar sjálfsvígstilraunarinnar og geðmeðferðar sem honum var veitt hætti hann að drekka áfengi eftir að hafa drukkið illa í tíu ár vegna sorgar yfir móðurmissi.

Þetta er ekki í eina skiptið sem Maggi hefur verið fluttur í sjúkrabíl. Ekki síður örlagaríkt atvik henti hann er hann var þriggja ára og fékk hann upp frá því CP hreyfihömlun, sjúkdóm sem hann glímir við ennþá.

Maggi, sem hefur haslað sér völl sem áhugaverður ljósmyndari í íslensku tónlistarsenunni, á að baki erfið áföll í lífinu og stríðir enn þann dag í dag við þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. En hann hefur fundið styrk sinn í ljósmyndun, fag sem er honum ástríða, og hann á sér framtíðardrauma. Lífið er langt frá því að vera svartnætti þó að sumir dagar séu sálinni erfiðir.

Blaðamaður DV hitti Magga á kaffihúsinu Súfistanum við Strandgötu í Hafnarfirði. Þar er Maggi í sínu umhverfi enda Hafnfirðingur í húð og hár, alinn upp á Hvaleyrarholtinu.

Viðurnefnið gnúsari er tilkomið vegna þess að fyrrverandi yfirmaður Magga, þegar hann starfaði í Bónus, kallaði hann gnúsara, sem afbrigði af nafninu Magnús. Nafnið Maggi gnúsari hefur síðan fest sig við manninn.

Maggi, sem fæddur er árið 1989, er klæddur í svartan leðurjakka, prýddan ísaumuðum merkjum, og svartar gallabuxur. Hann er með sítt, slétt hár sem ásamt klæðnaðinum vekur upp tilhugsun um uppreisnargjarna æsku. Yfirbragð og framkoma mannsins einkennist þó af mýkt, kurteisi og viðkvæmni. Hann er opinskár og hreinskilinn en þó fremur fáorður, svarar spurningum stuttaralega en er þó engu að leyna, en segir fátt í óspurðum fréttum. Nærvera hans er þægileg og vinsamleg en samt skynjar maður depurð. Hann segist hafa verið fremur langt niðri undanfarið.

Við víkjum sögunni að fyrsta stóra áfallinu í lífi Magga.

Heimsókn til ömmu breyttist í martröð

Þriggja ára gamall var Maggi í heimsókn hjá ömmu sinni með föður sínum þegar hann fékk þar heilablóðfall. Mjög fátítt er að þessi algengi sjúkdómur herji á lítil börn en þó ekki óþekkt. Maggi man, sem gefur að skilja, ákaflega lítið eftir þessu, en þó þetta:

„Ég man bara eftir að hafa dottið í stofunni hjá ömmu og vaknað í sjúkrabílnum. Ég man lítið af því sem gerðist í kjölfarið.“

Maggi greindist skömmu eftir þetta með CP hreyfihömlun sem hefur fylgt honum í gegnum lífið. Hvaða áhrif hafði hún á barnæsku hans?

„Ég þurfti að fá sérkennslu og mikinn stuðning.“ Hann segir að sjúkdómurinn hafi haft mikil andleg og líkamleg áhrif á sig og einangrað hann að einhverju leyti sem barn. „Ég átti samt alveg mína vini,“ segir hann þó.

Hann hefur með árunum náð betri tökum á sjúkdómnum sem hamlar honum þó töluvert, hann hefur ekki mikið þrek og þarf að gæta þess að ofreyna sig ekki.

„Ég ætti að vera í sjúkraþjálfun en hef ekki verið í henni undanfarið, en ég fer í ræktina þrisvar í viku. Ég er í ræktinni með liðveislu undir handleiðslu manns sem er lærður einkaþjálfari og næringarfræðingur.ׅ“

Þess má geta að CP hreyfihömlun er algengasta tegund hreyfihamlana meðal barna. Sjúkdómurinn veldur seinþroska vegna skaða eða áfalls á stjórnstöðvar hreyfinga í heila. Áhrifin eru mismikil eftir einstaklingum. Sum börn með CP þroskast næstum eðlilega á meðan önnur með sjúkdóminn þurfa aðstoð við nánast allar athafnir daglegs lífs. Ljóst er að sjúkdómurinn hefur gífurleg áhrif á líf þess sem hann fær.

Magnús var um tvítugt þegar næsta stóra áfallið í líf hans reið yfir.

Mynd: DV/KSJ

Móðurmissir, ofdrykkja og endurreisn

Það var árið 2009 sem móðir Magga, Elín Snorradóttir, lést í sviplegu slysi í heimahúsi. Gífurlegt og fullkomlega ófyrirsjáanlegt áfall. Næstu tíu ár hneigðist Maggi mjög til drykkju og var mikið á djamminu, gjarnan á popp- og rokktónleikum í miðborginni, oftast undir miklum áhrifum áfengis.

„Ég komst að því seinna að ég var að drekka í sorg. Í tíu ár drekkti ég sorgum mínum og söknuðinum eftir mömmu í áfengi. Mér fannst ég vera öruggari með mig þegar ég var kominn í glas og mér leið betur,“ segir hann, en svo kom vanlíðanin alltaf tvíefld til baka í þynnkunni.

Allt breyttist þetta með því sem kalla mætti þriðja stóra áfallið í lífi Magga, þegar hann reyndi að svipta sig lífi fyrir fjórum árum, en kallaði þó um leið á hjálp og það varð honum til bjargar.

„Ég átti við mikil peningavandamál að stríða út af fyrrverandi sambýliskonu minni sem sveik út úr mér peninga og steypti mér í skuldir sem ég sé enn ekki alveg út úr. Ég var kominn í mikla skuld og pabbi hafði samband við mig og sagði að ég þyrfti að gera eitthvað í þessu. Þetta var svo mikið álag að ég bognaði undan því og tók stóran pilluskammt. En ég sagði frá því á Facebook að ég hefði gert þetta og ekki löngu eftir það kom sjúkrabíll.“

Maggi fékk mikla aðstoð og endurhæfingu eftir sjálfsvígstilraunina. „Það kom í ljós í þessari eftirfylgni að ástandið á mér var miklu alvarlega en það leit út fyrir að vera. Ég átti mjög góðan tíma í dagvistun á Kleppsspítalanum og mér leið mjög vel þar. Fyrst var unnið í þessum sjálfsvígshugsunum en síðan var mér hjálpað við að taka til í fjármálunum.“

Maggi fór aldrei í áfengismeðferð en sú hjálp sem hann fékk dugði til að kveða niður áfengislöngunina. Hann hefur stundað nokkuð AA-fundi og lætur vel af þeim.

Hann lærði að takast edrú á við sorgina yfir móðurmissinum. En finnst honum hann vera í sambandi við móður sína? Hefur hann náð tengingu við hana?

„Ég trúi því alveg að mamma vaki yfir mér en ég trúi ekki á guð eða neitt svoleiðis og er ekki mjög andlega sinnaður, þannig lagað.“

Erfiðara að treysta fólki

Sem fyrr segir er Maggi uppalinn á Hvaleyrarholtinu í Hafnarfirði og hefur búið alla ævi í firðinum. Hann býr núna í eigin íbúð í blokk við Hjallabraut.

„Ég fékk arf eftir móður mína og þegar ég bjó hjá pabba þá lagði hann allar örorkubæturnar mínar til hliðar og safnaði fyrir mig. Þess vegna gat ég keypt mér íbúð.“

Við fráfall móðurinnar sat faðir Magga ekki í óskiptu búi því hjónin voru skilin. Samskipti Magga við báða foreldrana voru góð og hann hefur notið mikils stuðnings fjölskyldunnar. Hann segir þó að vissulega hafi stundum verið vandamál og ósætti í fjölskyldunni eins og öðrum.

Maggi á tvíburabróður og einn eldri bróður. Auk þess hefur hann tengst vel tveimur sonum síðari eiginkonu föður síns.

Auk íbúðarinnar á Maggi eigin bíl og stendur betur en margir aðrir fjárhagslega þrátt fyrir ákveðna erfiðleika sem hann rekur til svika fyrrverandi sambýliskonu. Eins og DV greindi frá fyrr í haust segist Maggi einnig hafa orðið fyrir svikum af hálfu Ástríðar Kristínar Bjarnadóttur sem á yfir höfði sér margar ákærur vegna meintra fjársvika gagnvart tugum, ef ekki hundruðum einstaklinga.

Sjá einnig: Maggi lenti í fjársvikum Ástríðar og lýsir aðferðum hennar – „Ég vildi hitta hana svo mikið“

Í frétt DV um málið sagði:

„Maggi komst í kynni við Ástríði í gegnum stefnumótaforritið Tinder árið 2020. Kynni þeirra þróðuðust hratt á þann veg sem Ástríður virðist vilja hafa kynni sín af karlmönnum í gegnum stefnumótaforrit og -vefi, en Maggi lokaði á samskipti við hana eftir rúmlega viku.

„Þetta fór eiginlega bara beint í það að hún bað mig um pening. Ég vildi hitta hana svo mikið og lagði inn á hana pening. Hún sagðist vera staurblönk og ekki eiga peninga fyrir bensíni. Sagði líka alltaf að hún myndi borga daginn eftir. Svo leið smá tími, hún var alltaf að biðja mig um meiri peninga og ég var alltaf að bíða eftir að fá peninginn sem ég lét hana fá til baka.“

Maggi segist hafa lagt um 80 þúsund krónur inn á Ástríði í fjórum millifærslum. Í eina skiptið sem þau hittust reyndi hún að færa svikin upp á annað stig:

„Ég sat í bílnum hennar á bensínstöð við Reykjavíkurveg. Þetta var mjög skrýtið. Hún var að spyrja mig um pening og ég sagðist ekki eiga neitt. Hún sagði að ég gæti lagt inn á hana í gegnum appið Veski hjá Arion banka. Hún sýndi mér hvernig ég ætti að fara að á símanum mínum. En ég bakkaði út úr þessu og fór. Ég vildi ekki vera að skuldsetja mig á þennan hátt.““

Maggi segir að samskiptin við Ástríði hafi í raun ekki haft áhrif á fjárhag hans sem slíkan enda ekki um mjög háa upphæð að ræða og þetta voru peningar sem hann átti en þurfti ekki að skuldsetja sig fyrir. Hins vegar hafi samskipti við báðar konurnar leitt til þess að hann eigi erfiðara með að treysta fólki en áður:

„Það er klárlega þannig. En ég vinn mig í gegnum þetta. Maður þarf líka að passa sig, fara varlega í samskiptum við fólk og ekki treysta því í blindni.“

Mynd: DV/KSJ

Depurðin og jákvæðnin takast á

„Þetta gengur í bylgjum upp og niður. Bestu dagarnir eru þegar ég hef nóg að gera. Ef það er lítið í gangi þá koma þessar ljótu hugsanir um að ég sé ekki nógu góður. Minnimáttarkennd,“ segir Maggi sem er ekki laus við sjálfsvígshugsanir þó að hann sé á miklu betri stað en kvöldið örlagaríka fyrir fjórum árum þegar litlu mátti muna um að hann bindi enda á eigið líf. „Stundum fyllist ég löngun til að binda enda á lífið, hengja mig, eða eitthvað svoleiðis hræðilegt.“

Ljósmyndunin er vonarstjarnan í lífi hans en stundum læðist neikvæðnin þangað inn líka. „Stundum líður mér ekki nógu vel þegar mér finnst ekki ganga nógu vel í ljósmynduninni, til dæmis ef ég næ ekki réttu skoti. Líkamlega fötlunin veldur því líka að stundum treysti ég mér ekki í hitt eða þetta. En ég reyni bara að vinna vel úr því sem ég hef og reyni að láta mér ekki líða illa út af því sem ég get ekki.“

Segja má að ljósmyndunin hafi komið í staðinn fyrir áfengið. Eftir tíu ár á djamminu var Maggi skyndilega byrjaður að mæta edrú á tónleika. Þá þurfti hann að hafa eitthvað fyrir stafni og byrjaði að mynda hljómsveitirnar og stemninguna á tónleikunum. Þetta vatt upp á sig. Núna er hann á kafi í tónlistarljósmyndun en myndar auk þess úti í náttúrunni. „Ég er mjög hrifinn af landslagi. En stundum á ég erfitt með að komast á staðina sem ég vil mynda, út af fötluninni.“

Hann segir að mikill munur sé á því að vera edrú á tónleikum en undir áhrifum áfengis. Edrú sé áreitið í umhverfinu miklu meira, en hann höndli það vegna þess að oft sé hann innan um fólk sem hann þekkir vel.

Þó að Maggi hafi yfirbragð rokkarans í klæðahurði og hárgreiðslu segist hann hlusta á alls konar tónlist. Þegar hann er beðinn um að nefna uppáhaldshljómsveitir koma þrjár fyrst upp í hugann: Judas Priest, Megadeath og Volbeat.

Um síðustu helgi myndaði hann í gríð og erg á Airwaves hátíðinni fyrir tímaritið Grapevine. Líkamlegt álag er honum áskorun og hann var þreyttur eftir þessa törn. „Ég var mjög lúinn í fótunum eftir þetta,“ segir hann, en er augljóslega ánægður með verkefnið.

Framtíðardraumar Magga snúast meðal annars um að fá aukin verkefni við tónleikaljósmyndun og þá helst erlendis. Aðilar vinveittir honum eru að kanna möguleika á verkefnum fyrir hann í Noregi.

Hins vegar þráir Maggi að komast aftur í fast samband. Hann sér sjálfan sig fyrir sér sem fjölskyldumann í framtíðinni. Hann er oft mjög einmana. „Ég hef alveg þörf fyrir samband núna, er einmana og mig vantar þessa ást, skilurðu, hún er það sem mig vantar,“ segir Maggi. Megi honum verða að ósk sinni.

Mynd: DV/KSJ

Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Tónlistin er að styttast – Lög eru 48 sekúndum styttri en árið 1990

Tónlistin er að styttast – Lög eru 48 sekúndum styttri en árið 1990
Fókus
Fyrir 2 dögum

Orlando Bloom eyddi fúlgum fjár í umdeilda læknismeðferð

Orlando Bloom eyddi fúlgum fjár í umdeilda læknismeðferð
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ozempic-píkan var vesen – Ozempic-typpið virðist hins vegar vera veisla

Ozempic-píkan var vesen – Ozempic-typpið virðist hins vegar vera veisla
Fókus
Fyrir 5 dögum

Dóttir Völu Kristínar og Hilmis Snæs komin í heiminn

Dóttir Völu Kristínar og Hilmis Snæs komin í heiminn