Barnabókahöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir er stoltur alkóhólisti í bata. Hún opnaði sig um edrúlífið og kvíða í viðtali vikunnar í Bítinu á Bylgjunni. Hún var að gefa út nýja skáldsögu fyrir unglinga, VeikindaDagur.
Í gegnum árin hefur Bergrún prófað kvíðalyf en það sem henni hefur þótt hafa unnið best gegn kvíðanum var að hætta að drekka áfengi.
„Ég bara klippti það út, loksins, út úr lífi mínu. En þetta er samt vinna, þú þarft að vera meðvitaður. Maður getur verið drullu kvíðinn og meðvirkur og það er alls konar sem kveikir á kvíðanum en maður er með tæki og tól, eins og hugleiðslu, jóga, góða næringu, góðan svefn og góða rútínu,“ segir hún.
Rithöfundurinn segir að það sé erfitt að ná utan um áhrifin sem drykkjan hafði á líf hennar því hún misnotaði það í svo mörg ár.
„Það náttúrulega veldur því að þú sérð aldrei í raun og veru það sem er að. Þú ert alltaf deyfður, þú ert alltaf að deyfa einhvern sársauka, fela eitthvað trauma og þú getur ekki unnið í því. Þú ert að reyna að lifa lífinu með svolítið vanstillt útvarp inn í þér, eins og ég lýsi því stundum. Svo þegar áfengið er farið þá geturðu farið að fíntjúna útvarpið og heyrir rétta bylgjulengd og heyrir þína rödd,“ segir hún.
Bergrún fór í meðferð og segir að undanfarið ár hefur verið strembið en hún sé mjög ánægð að hafa tekið skrefið.
„Ég er stoltur alkóhólisti í dag því ég er alkóhólisti í bata,“ segir hún.
Hún á tvo syni og segir að það hefur verið æðislegt að fá að upplifa edrúlífið með þeim.
„[Sonurinn] sagði eftir nokkrar vikur edrú: „Mamma, þú ert svo miklu rólegri og þú ert ekki alltaf þreytt.“ […] Börn sjá allt. Þó það sjáist ekki á manni, þó maður sé ekki ölvaður fyrir framan þau, þá sjá þau að manni líður ekki vel,“ segir hún.
„Botninn minn, eða einn af mörgu botnum, var þegar yngra barnið lagði á borðið og setti þrjú vatnsglös og eitt bjórglas fyrir mömmu. Þá finnur maður aðeins, ókei það er kannski komið gott.“
Hlustaðu á allt viðtalið hér.