Ævisaga söngkonunnar Britney Spears kom út á dögunum. Hún ber titilinn The Woman in Me og sýnir það enn og sannar að lífið er búið eftir fertugt, en nú eru flestir farnir að slaufa þessu öllu saman og henda í æviminningarnar á fimmtugsaldri, vitandi að ekkert merkilegt á eftir að bera á fjörur þeirra í þessari háu elli.
Britney verður í bók sinni tíðrætt um hversu furðuleg hún í raun er, svona inn við beinið. Því liggur beinast við að hún fari óhefðbundna leið í æviminninga-skrifum. Því þrátt fyrir að orðið æviminningar gefi til kynna að þar sé litið aftur um farinn veg og ævinn eins og hún leggur sig uppgerð, horfir Britney öðrum augum. Hún telur æviminningar vel geta verið framhaldssögu, eða slíkt má álykta af skrifum hennar á Instagram.
„Húmorinn er besta meðalið. Áfram gakk. Bindi tvö kemur út á næsta ári, verið viðbúin.“
Nú þegar hafa æviminningar hennar valdið fjaðrafoki. Þar gerir hún upp frægt ástarsamband sitt við söngvarann Justin Timberlake og dregur ekkert undan. Aumingja Justin hefur þurft að loka sig af síðustu vikur og látið lítið fara fyrir sér. Margt í bókinni hafði aldrei verið á almannavitorði, svo sem að Justin hafi þrýst á Britney að fara í þungunarrof, hann hafi komið illa fram og ekkert gert þegar fjölmiðlar ákváðu að mála Britney upp sem kaldlynda tussa eftir að sambandi þeirra lauk.
Britney lét ekki þar við sitja heldur opinberaði eldheit skyndikynni við leikarann Colin Farrel og fór að sjálfsögðu djúpt ofan í saumana á tímabilinu sem hún var sjálfræðissvipt. Hvað stendur eftir, gæti maður spurt. En ef marka má Britney þá kemur það í ljós fljótlega.