Við heyrðum í Karen Ósk í gær en þá var hún einmitt á leið frá Íslandi til Napólí, þar sem keppnin verður haldin.
Karen Ósk er alin upp á Álftanesi og mun útskrifast síðar í mánuðinum sem stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Meðfram skóla hefur hún unnið í verslun Ormsson að selja raftæki og innréttingar. Hún hefur gaman af því að fara á tennisæfingar, skíða með fjölskyldunni og fjallahjólreiðum.
Karen Ósk tók þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ísland – sem þá hét Miss Universe Iceland – árið 2022 og lenti í topp tíu.
Nú liggur leið hennar utan landsteina í Miss Europe Continental.
„Ástæðan fyrir þátttöku minni er fyrst og fremst til þess að styrkja sjálfa mig en aldrei hefði mér dottið það í hug að ég myndi fara að keppa í fleiri keppnum, hvað þá fyrir Ísland í Evrópu,“ segir hún.
„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér tækifærin sem mér hafa boðist eftir þátttöku mína í keppninni heima á Íslandi og mér finnst ég hafa vaxið sem einstaklingur.“
Karen Ósk er spennt fyrir næstu dögum.
„Ég finn fyrir miklum spenningi að hitta allar stelpurnar sem verða með mér í þessu ferli en ég er líka svolítið stressuð. Undirbúningurinn fyrir svona verkefni tekur langan tíma. Ég veit að vikan fram undan mun taka verulega á, þetta er stór áskorun og alveg út fyrir þægindarammann stundum. Ég veit hins vegar að ég mun verða mjög glöð með sjálfa mig að keppni lokinni, alveg sama hver úrslitin verða,“ segir hún.
„Fyrir mér er þetta ekki bara fegurðarsamkeppni heldur horfi ég frekar a þetta sem sjálfsstyrkingarnámskeið. Og tækifæri til þess að stækka tengslanetið mitt.“
Fylgstu með Karen Ósk á Instagram.
Hægt verður að horfa á keppnina í beinni á Amazon Prime.