Breski söngvarinn og hjartaknúsarinn Robbie Williams stendur í ströngu þessa daganna. Hár hans er að þynnast, kynhvötin minnkað, hann er orkulaus og á erfitt með að festa svefn. Söngvarinn skrifar þessi einkenni á tíðahvörf, þó hann hafi aldrei haft á klæðum.
Robbie segir í samtali við The Sun að stöðugt djamm er hann var yngri hafi tekið verulega á líkama hans. Djammið hafi sogað úr honum lífskraftinn og eins gert hormónabúskapinn að rjúkandi rúst.
„Hárið er að þynnast, testósterónið hefur sungið sitt seinasta, serótónínið er eiginlega búið og dópamínið kvaddi fyrir löngu síðan. Ég er búinn með allt það góða sem líffræðin úthlutaði mér. Ég er með tíðahvörf. Dóttir mín segir við mig: Pabbi er latur. Ég kann illa að meta orðið latur þar sem ég notað það til að lýsa mér þegar ég var yngri. Raunveruleikinn núna er sá að ég er uppgefinn á líkama og sál eftir tíunda áratuginn og hluta af fyrsta áratug nýrrar aldar.“
Robbie hefur undanfarið talað opinskátt um líðan sína, en von er á heimildaþáttum á Netflix þar sem hann kafar enn dýpra ofan í aðstæður. Hann ánetjaðist um tíma svefntöflum en hefur tekist að sigra fíknina, en hann geti þó ekki sigrað eigin líkama. Fyrir einhverja ástæðu þá virðist honum ómögulegt að vera sofandi fyrir klukkan fjögur á nóttunni og sofnar hann vanalega um klukkan sex, er margir aðrir fara á fætur. Svo vaknar hann skömmu eftir hádegi.
Fyrir þá sem furða sig á ummælum söngvarans um breytingaskeið, þar sem hann hefur ekki leg, eggjastokka né blæðingar, þá má nefna að talið er að karlmenn gangi líka í gegnum eins konar breytingaskeið þegar þeir nálgast sextugsaldurinn. Þá glíma þeir við einkenni á borð við skapsveiflur, minnkaða kynhvöt, vöðvarýrnun, svefnerfiðleika og verra skammtímaminni. Gerist þetta sökum þess að karlhormónið testósterón minnkar í líkamanum, eða sökum kynkirtlavanseytingar þar sem eistun draga verulega úr, eða hætta alfarið, framleiðslu hormónsins.
Þar sem aðstandendur heimildarþáttanna vildu varpa raunverulegu ljósi á líf söngvarans var honum meinað að sprauta sig með Botoxi á meðan á upptökum stóð. Aðspurður um hvort þetta séu einu fegrunaraðgerðirnar sem hann hefur gengist undir sagði Robbie að þær væru fleiri og yrðu fleiri. Næst ætlar hann að láta laga í sér tennurnar og strekkja á hálsinum. Það sé ástæðulaust að fela þetta, flestir í skemmtanabransanum gangist undir slíkar aðgerðir en lýtalæknar gæti þess að það verði ekki of áberandi. Hálslyftingin verður fimmtugsafmælisgjöfin frá honum til hans.
Hann bætir við að þrátt fyrir áralanga sálfræðimeðferðir glími hann við lágt sjálfsálit. Hann taki allri gagnrýni inn á sig og gangi út frá því að öllum sé í nöp við hann.
Nánar má lesa um söngvarann og heimildarþættina í umfjöllun The Sun.