Fjölhæfi skemmtikrafturinn Sóli Hólm er því fenginn að að Síminn hafði trú á fáránlegri hugmynd. Afraksturinn sé fram úr öllum vonum og viðbrögðin hvorki meira né minna en stórkostleg. Frá þessu greinir hann á Facebook eftir að hann horfði á seinasta þáttinn af Iceguys.
„Ég hló fáránlega oft upphátt sem er mögulega smá vandræðalegt þar sem ég skrifaði handritið að þessum þáttum. Frammistaða strákanna og Söndru Barilli í þáttunum er einfaldlega framar mínum björtustu vonum. Það er svo mikill sómi að því hvernig þáttunum er komið til skila að maður bara tárast af hrifningu og auðvitað stundum úr hlátri.“
Sóli greinir frá því að ævintýrið hafi byrjað í mars þegar Hannes Þór Halldórsson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu, hafði samband við hann með galna hugmynd. Sóli var tvístígandi og ákvað að treysta því að Síminn myndi sjá að hugmyndin væri fáránleg og neita að taka þátt.
„Í besta falli myndi ég bara skrifa þetta undir dulnefni. Það leið engum vel með þetta verkefni til að byrja með held ég enda gerðist þetta svo fáránlega hratt.“
Sóli segir að strákarnir á bak við framleiðslufyrirtækið Atlavík eigi allan heiðurinn að því að þetta varð að veruleika. Þetta eru þeir Allan Sigurðsson, Hannes Þór Arason og svo Hannes Halldórs sjálfur. Þó Sóli hafi verið hikandi til að byrja með átti það eftir að breytast um leið og þeir sem að verkefninu komu settust niður saman og fóru að skiptast á hugmyndum.
„Það er skrítið að skrifa handrit og þurfa að stóla á að því verði gerð góð skil. Það var svo sannarlega gert. Ég hef fengið mikið lof fyrir handritið sem ég tek af auðmýkt en bendi á og ítreka að ég á hvergi nærri allan heiðurinn af sögu þáttanna. Hannes Halldórsson var með mér í að skrifa söguna og Jón Jónsson kom með ómetanlegt input líka, átti til að mynda heiðurinn að endinum ef ég man rétt. Allan Sigurðsson á líka heiðurinn að Jóni í tannlæknastólnum. Svo komu þeir allir með skemmtileg input sem skiluðu sér mörg i þættina. Falleg og góð samvinna.“
Sóli þakkar líka þeim þjóðþekktu einstaklingum sem voru tilbúnir að leika agalegar ýktar útgáfum af sjálfum sér í þáttunum. Viðbrögðin hafi verið meira en stórkostleg og vikulega slá þættirnir áhorfsmet í Sjónvarpi Símans.
„Sennilega var þetta bara ekki svo vitlaus hugmynd. Þvílíkt ævintýri! Takk fyrir mig.“