Talsverð eftirvænting ríkir innan íslenska Pokémon-samfélagsins því á morgun fer fram fyrsti svokallaði „trade-viðburður“ sem haldinn hefur verið hér á landi.
Um er að ræða samstarf á milli Pokéhallarinnar og Barnaloppunnar í Skeifunni en eins og nafnið gefur til kynna gefst ungum og öldnum söfnurum og öðrum áhugasömum færi á að bera saman bækur sínar, skiptast á spilum og kaupa og selja spil. Þá verður boðið upp á allskonar uppákomur á viðburðinum sem fram fer í húsnæði Barnaloppunnar annað kvöld á milli klukkan 18 og 22.
„Þetta kvöld sem við erum að skipuleggja er fyrir okkar frábæra og skemmtilega fólk, sem elskar Pokémon og allt í tengslum við Pokémon”, segir Barði Páll Böðvarsson sem er eigandi Pokéhallarinnar ásamt Gunnari.
Sem fyrr segir verða ýmsar uppákomur í gangi fyrir utan að skiptast á spilum. Boðið verður upp á veitingar fyrir alla sem mæta þar til birgðir endast ásamt drykkjum. Einnig verða tilboð á Pokémon pökkum og uppboð á grade-uðum spilum eins og þau kallast í bransanum, en það eru spil sem hafa farið í gegnum mat erlendra matsfyrirtækja sem sérhæfa sig í að meta ástand spila.
Þá verður hægt að kaupa allskonar Pokémon-varning, til dæmis Mystery-box, og þá verður boðið upp á happdrætti. Gestir geta líka átt von á að fá eitthvað gefins.
Verslun Barnaloppunnar verður opin gestum og má því búast við miklu fjöri annað kvöld.
„Ég sem áhugamaður og safnari sjálfur vildi endilega taka þátt og skipuleggja skemmtilegan viðburð tengdan Pokémon,“ segir Andri Jónsson sem er eigandi Barnaloppunnar ásamt eiginkonu sinni, Guðríði. „Og það er enn skemmtilegra að hugsa til þess að þetta hefur ekki verið gert áður hér á landi,” bætir Andri við að lokum.