Valgerður Sif er 33 ára gift, tveggja barna móðir úr Breiðholti. Hún er nýjasti gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman og opnar sig um erfiða æsku og ofbeldissamband, sem hún hélt að hún myndi aldrei lenda í eftir að hafa horft upp á blóðmóður sína í sömu aðstæðum.
Valgerður var níu mánaða þegar hún var tekin í fóstur hjá eldri systur blóðmóður sinnar.
Blóðmóðir hennar bjó rétt hjá þeim og var mikill samgangur á milli heimila. Hún eignaðist þrjú börn með öðrum manni, sem Valgerður segir hafa verið mikinn ofbeldismann.
„Það litaði æsku okkar allra,“ segir hún og rifjar upp eitt atvik.
„Ég var komin með heimasíma inn í herbergi mitt, svaraði í símann og heyrði bara öskur: „Hjálpið mér!“ Það var verið að öskra í símann. Og ég pollróleg, labbaði inn í svefnherbergið hjá mömmu og pabba, vakti þau og sagði: „Mamma, það er síminn til þín. Hann er að reyna að drepa hana.“ Og rétti henni símann.“
Valgerður segir að á þessum tíma hafði sagan endurtekið sig svo oft að í hennar augum var þetta normið. Einnig ríkti mikil þöggun varðandi þetta í fjölskyldunni. „Hún var búin að vera í hrikalegu ofbeldissambandi og gat ekki komið sér út úr því og þá vildu allir bara halda þessu eins og ekkert hafa gerst. Hún henti honum út í smá tíma og svo kom hann aftur,“ segir Valgerður og bætir við að viðbrögð foreldra hennar hafi engan veginn verið rétt í þessu. „Kannski vissu þau ekki betur.“
Aðspurð hvernig viðbrögð þeirra voru útskýrir Valgerður að þau hafi verið vön að fara með hana á heimili blómóður hennar þegar hún hringdi.
„[Þau ruku af stað þegar hún hringdi og með mig] og þegar ég mætti á staðinn var íbúðin í rúst, búin að brjóta öll húsgögn, rústa sjónvarpinu og búið að lemja hana alveg sundur og saman. Þetta var einhvern veginn var orðið svo mikið norm, þegar ég fékk þetta símtal, þetta var svo eðlilegt fyrir mér.“
Hlustaðu á allan þáttinn hér að neðan.