Hafi einhver gleymt því er gott að minnast þess að þrátt fyrir fullveldi þá heyrir Ástralía enn undir Bretland. Þó höf og álfur skilji að hafa Ástralar því gífurlegan áhuga á konungsfjölskyldunni og láta engar sögusagnir um meðlimi fjölskyldunnar fram hjá sér fara.
Daniela Elser, blaðakona skrifar reglulega pistla þar sem hún beinir sjónum sínum að hertogahjónunum Harry Bretaprins og Meghan Markle og þeim sögusögnum sem á sveimi eru.
Að þessu sinni segir Daniela að hertogahjónin séu í kastljósi sögusagna um galið útspil. Hún rekur að um helgina hafi Harry látið sjá sig á Formúlu 1 viðburði í Texas þar sem hann virtist hafa nægan tíma til að skemmta sér. Þetta sé í þriðja sinn á einum mánuði sem Harry gerir sér glaðan dag. Hann sé duglegur að ferðast með einkaflugi og hafi nýlega skellt sér á karabíska eyju sem milljarðamæringar verja tíma sínum á. Nú sé umbreyting Harry frá því að vera prins yfir í að vera Hollywood-maður nánast fullkomnuð.
Ekki nóg með það heldur sé sögusagnir á sveimi að Harry ætli hreinlega að gera alfarið út af við virðulegan konungsfjölskyldutitilinn. Hann og kona hans séu að íhuga að koma fram í raunveruleikaþáttunum Kardashians.
Daniela segir að þar með fengju áhorfendur að verða vitni að því þegar prins selur sál sína alfarið á altari kapítalisma og neysluhyggju, og þessa fórn færi hann til að glæða lífi í feril sinn og eiginkonunnar sem hefur ekki gengið eins vel og vonir stóðu til undanfarið.
„Ef þetta verður að veruleika þá mun salan á yfirliðs-bekkjum keyra upp úr öllu valdi,“ skrifar Daniela og veltir fyrir sér hvers vegna í guðs nafni hertogahjónin séu að íhuga að leggjast svo lágt.
Samkvæmt gömlum skólafélaga Harry sé þetta þó skiljanlegt útspil. Hertogahjónin þurfi peninga. Þessi skólafélagi hafi sagt í samtali við Daily Beast:
„Ég meina, þetta var gegnumgangandi brandari – Ó þau ætla að vera nýja Kardashian fjölskyldan. En tilhugsunin um að þetta gæti í alvörunni orðið að raunveruleika er galin. Ég er gáttaður. Þau hafa sólundað orðspori sínu til að eltast við peninga og þetta er afurðin. Ég reyndar held að þegar á hólminn verður komið þá láti þau verða að þessu, eða gera eitthvað í þessa átt. Þau hafa gert allt annað og þeim mun vanta peningana.“
Hertogahjónin virðast ekki hafa neitt nýtt á prjónunum. Harry hafi gefið út æviminningar sínar, Spotify hafi rekið þau, og ekki hefur verið tilkynnt um nein væntanleg verkefni. Daniela velti því fyrir sér hvort Kardashian fjölskyldan sé leið hertogahjónanna upp úr þeirri holu sem þau virðast vera komin ofan í.
Þetta yrði vissulega góð kynning fyrir þau og mögulega til þess fallið að auka vinsældir en samkvæmt nýlegri könnun hafi Meghan sjaldan verið óvinsælli. Kardashian fjölskyldan sé eitt þekktasta vörumerki heimsins.