Fátt klýfur fólk meira í fylkingar en umræður um Gísla Martein Baldursson, sjónvarpsmann, og vikulegan skemmtiþátt hans á RÚV. Á meðan sumir missa ekki af þætti eru aðrir sem að láta Gísla Martein fara í sínar fínustu.
Brynjar Níelsson er einn þeirra sem að er ekki í aðdáaendahóp sjónvarpsmannsins, né stofnunarinnar sem hann vinnur fyrir, og hann skaut föstum skotum í pistli á Facebook-síðu sinni. Það þykir þó nokkrum tíðindum sæta að Össur Skarphéðinsson, fyrrum ráðherra, blandaði sér í umræður um málið og virtist hjartanlega sammála kaldhæðnislegri gagnrýni Brynjars. Ekki oft sem frjálslynda vinstrið og íhaldsama hægrið sameinast með þessum hætti.
Skilur ekki hver ber ábyrgðina á RÚV
„Ég er kominn á þá skoðun að menn sem geta boðið almenningi upp á skemmtiþátt vikulega á RÚV með svo gott sömu gestunum og sömu bröndurunum samfleytt í heilan áratug hljóti að vera snillingar. Og þeir eru ekki síðri snillingar sem geta rekið fréttastofu almannaútvarpsins eins og einkafirma pólitískra aktivista sem er í því að sannfæra almenning um að Hamas sé í frelsisbaráttu og þess á milli að grafa undan mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar og réttarríkinu þegar mikið liggur við til að réttlæta brot þeirra með réttu skoðunina,“ skrifaði Brynjar í upphaflegu færslu sinni.
Sagðist hann velta fyrir sér hver bæri ábyrgð á “ þessu kompaníi sem fær á sjöunda milljarð frá skattgreiðendum á hverju ári, raskar öllum eðlilegum fjölmiðlamarkaði og fer bara að lögum þegar því sýnist?.
„Eru stjórnmálamenn alveg sofandi og ábyrgðarlausir? Held að það myndi heyrast hljóð úr horni í öðrum ríkjum ef ríkismiðill hegðaði sér svona,“ skrifaði Brynjar.
„Erum við loksins sammála?“
Miklar umræður sköpuðust um færsluna, eins og vant er með hvassar færslur Brynjars. Fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, Páll Valur Björnsson, spurði hann meðal annars hvað hann hefði gert til þess að hafa áhrif á fyrirkomulagið varðandi RÚV þegar hann var á þingi. En svo kvað Össur sér hljóðs.
„Er eitthvað að því að Gísli Marteinn fái að halda úti sjónvarpsþætti fyrir vini og kunningja? Þetta er meinleysisfólk, sem yfirleitt hefur lítið að segja og styggir því engan. En gaman væri að sjá þarna af og til vitsmunaverur eins og Einar Steingrímsson en Gísli gætir þess náttúrlega að taka enga sem hafa strítt honum eða hann á óuppgerðar sakir við,“ skrifaði Össur kaldhæðnislega og bætti svo við skömmu síðar. „Gísli Marteinn gerir ekki grín að neinum nema það sé skrifað upp í túlann á honum!“.
Stefán Einar Stefánsson, viðskiptablaðamaður og kampavínsinnflytjandi, svaraði þá Össuri og sagði ekkert að því að Gísli Marteinn héldi út þætti fyrir vini og kunningja en þá ætti hann að borga fyrir það sjálfur en ekki með skattfé. Svaraði Össur því á þessa leið?
„Erum við loksins sammála?“