Bandaríski leikarinn Brad Pitt keypti sér fasteign í Los Angeles árið 1994 fyrir 1,7 milljón dala. Húsið sem var áður í eigu Cassandra Petersen var í eigu leikarans allt þar til í mars á þessu ári þegar hann seldi eignina fyrir 40 milljón dali.
Á þeim nærri þremur áratugum sem eignin var í eigu Pitt og hann bjó þar að miklu leyti tók hann eftir því að svæðið var að byggjast upp í miklum mæli. Pitt stækkaði smátt og smátt eign sína í gegnum árin.
„Ég held að það hafi verið svona 22 hús sem voru samliggjandi við jaðar eignarinnar. Og í hvert skipti sem hús kom á sölu keypti hann það,“ sagði Peterson í viðtali við People fyrr á árinu eftir að Pitt seldi eignina.
Petersen segir að eitt húsanna sem Pitt keypti hafi verið í eigu manns sem kominn var á níræðisaldur. Pitt bauð manninum að búa áfram í húsinu fram að dánardegi hans, leigulaust.
„Brad var mjög, mjög góður við manninn. Konan hans var látin og John bjó einn í húsinu. Ég veit að Brad leyfði honum að búa þar án þess að borga neitt þar til hann dó.“
Mögulega hefur leikarinn ekki gert ráð fyrir að leigusamningurinn yrði langur, því Peterson bætti við: „Þetta var svolítið fyndið því John varð 105 ára. Ég ímynda mér að Brad hafi hugsað, þú veist, hann getur búið þar þangað til hann deyr, sem gæti gerst hvenær sem er.“