Danska leikkonan Connie Nielsen er tilnefnd til alþjóðlegu Emmy-verðlaunanna sem besta leikkonan fyrir túlkun sína á skáldkonunni Karen Blixen í Viaplay-þáttaröðinni Draumar – Karen Blixen verður til.
Alþjóðlegu Emmy-verðlaunin verða afhent í New York 20. nóvember, en þau eru veitt fyrir framúrskarandi sjónvarpsefni. Þetta er 51. sinn sem Emmy-verðlaunahátíðin er haldin þar sem veitt eru verðlaun fyrir alþjóðlegt sjónvarpsefni.Þáttaröðin Draumar – Karen Blixen verður til hefur vakið mikla athygli meðal annars var hún fyrsta danska þáttaröðin sem valin var til þátttöku í Cannes International Series Festival í apríl 2022. Connie Nielsen fékk einnig Rungstedlund-verðlaunin nú í september úr hendi Margrétar Danadrottningu fyrir túlkun sína á Karen Blixen. Og nú er Connie Nielsen einnig tilnefnd til Emmy-verðlauna fyrir þessa Viaplay-þáttaröð.
Þáttaröðin er innblásin af lífi Karenar Blixen og bréfum hennar frá fjórða áratugnum, og segir frá því þegar Karen snýr heim til Danmerkur eftir margra ára dvöl í Austur-Afríku – gjaldþrota, veik og fráskilin. Elskhugi hennar er látinn og allir hennar draumar að engu orðnir svo hún neyðist til að flytja heim til móður sinnar á æskuheimilið Rungstedlund. Þáttaröðin er hrífandi frásögn um baráttu Karenar fyrir því að fylgja draumnum um að slá í gegn sem sá einstaki listamaður sem hún innst inni veit að hún er. Samhliða fylgjumst við með baráttu hennar fyrir fjárhagslegu sjálfstæði, uppgjöri hennar við hástéttarfjölskyldu sína ásamt tilraunum hennar til að sigrast á sjúkdómi, örvinglun og missi.