Lagasmiðurinn og tónlistarmaðurinn Gunnar Ingi Guðmundsson hefur sent frá sér lagið We´ll Find Rain. Rakel Pálsdóttir syngur lagið.
„Ég átti til þennan lagbút sem mér fannst nokkuð góður og vildi halda áfram með. Upphafleg pæling var að gera píanóballöðu en svo fékk ég þá hugmynd að gera þetta sem eins konar kvikmyndalag og útkoman er poppballaða í dramatískum kvikmyndastíl,“ segir Gunnar Ingi um lagið.
Gunnar Ingi gaf út plötuna Eyðibýli í september síðastliðnum og hefur fengið góðar viðtökur og er ný plata í vinnslu.
Stefán Örn Gunnlaugsson sá um upptökur, hljóðblöndun. Sigurdór Guðmundsson sá um masteringu.
Textinn er eftir Erin Brassfield Bourke og fékk hún hugmynd um tvær manneskjur sem lenda saman í skyndilegum rigningarstormi og fyllast gleði. Fjallar textinn á tilfinningaþrunginn og sjónrænan hátt um missi ástvina vegna skilnaða, andláts eða í myndlíkri upplifun af hvoru tveggja. Er fjallað um þetta í nostalgísku samtali við manneskjuna sem viðkomandi hefur misst og í minningunni hlægja þau saman á meðan rigningin bleytir þau.
Sem fyrr segir er lagið sungið af Rakel Pálsdóttur. Rakel gaf út sína fyrstu sólóplötu síðastliðið vor sem heitir Von.
Lagið We´ll Find Rain má hlýða á í spilaranum hér fyrir neðan.