Þeir lesendur sem þekkja hugtakið að dómsdagsfletta afþreyingarmiðlum á borð við Instagram og TikTok kannast mögulega við „No Dusty Sons“ fyrirbærið, eða enga miðjumoðs syni. Undir því merki hafa mæður birt myndbönd og deilt því hvernig þær kenna sonum sínum að deila álagi í ástarsamböndum og heimilishaldi. Að þeir taki á sig jafnt tilfinningalegt, andlegt og líkamlegt álag og makar þeirra.
En þetta trend er ekki bara fyrir konur. Hinn 34 ára gamli Eric Taylor hefur nú slegið í gegn með myndböndum þar sem hann kenndir dætrum sínum að forðast skussa og meðalskussa. Þær eigi ekki að sætta sig við minnsta samnefnarann.
Eric sýnir dætrum sínum hvernig framkomu þær eigi að venjast frá framtíðar maka. Í einu myndbandi sýnir Eric hvernig hann gefur dætrum sýnum olnboga- og andrými svo þær geti tjáð tilfinningar sínar. Með myndbandinu skrifaði hann:
„Tek tillit til tilfinninga dóttur minnar svo hún viti að lúsablesinn, sonur þinn, geti ekki reynt að þagga niður í henni með því að segja henni að slaka á.“
Í öðru myndbandi sést hann máta svuntur í heimilisvörudeild, „svo lúsugi sonur þinn viti örugglega að það er ekki bara á ábyrgð konunnar að elda.“
Í enn öðru skrifar hann að hann leyfi dóttur sinni að klára að segja hvað henni finnst svo „ómaginn hann sonur þinn reyni ekki að þagga niður í henni.“
Hér eru fleiri dæmi:
„Fer með dóttur mína í fín teboð svo trassinn hann sonur þinn haldi ekki að hann geti heillað hana með metnaðarlausum skyndibita.“
„Bý rétt um rúmið á morgnanna svo dóttir mín viti að liðleskjan hann sonur þinn sé ekki annað barn sem hún þarf að sjá um“
„Virði það þegar dóttir mín segir nei svo þegar landeyðan hann sonur þinn kemur, mun hún ekki samþykkja að það sé komið fram við hana eins og rusl“
Buzzfeed sló á þráðinn til Eric til að spyrja hann spjörunum úr, enda má segja að hann sé orðinn áhrifavaldur, þá vonandi í þeirri merkingu að hafa áhrif á næstu kynslóð svo þau geti gert betur í ástarsamböndum og staðið með sjálfum sér.
„Ég vil að dætur mínar viti hvernig virðing er sýnd í verki og að þær eigi virðingu skilið. Ég vil hjálpa þeim að skilja hvað ást er svo þær rugli því ekki saman við eitthvað sem þessi heimur reynir að selja þeim sem ást. Ég vil að þær viti að þær sé öflugar og hugrakkar, svo þær geti fetað sig áfram í lífinu sem sjálfstæðir einstaklingar.
Ég held að mörg okkar, oftast konur, séu alin upp við þá hugsun að minnsti samnefnarinn sé í góðu lagi. Að það sé í lagi að það sé ekki komið eins vel fram við okkur og við verðskuldum.“
Karlmenn séu gjarnan aldir upp án þess að nokkrar kröfur séu gerðar til þeirra hvað framkomu þeirra í garð kvenna varðar. Eric vill að dætur hans viti hvað sé góð framkoma og hvaða framkoma sé óboðleg.
„Ég vil að þær séu undirbúnar, viti virði sitt, og að þær geti verið glaðar í lífi sínu því þær eru með einhverjum sem leggur á sig þá vinnu sem nauðsynleg er til að halda gott heimili.“
Til annarra feðra í sömu stöðu, sem vilja ala upp sterkar og sjálfstæðar konur, segir Eric:
„Lítið í spegilinn. Gallana ykkar, sigra, duttlunga, áföll og gleði. Horfist í augu við raunveruleika ykkar. Þetta sem þið eruð lélegir í? Verðið betri. Hlutirnir sem þið eruð góðir í? Verðið enn betur. Flestir menn tala um að undirbúa riffilinn sinn þegar dætur þeirra fara á sitt fyrsta stefnumót. Ég segi að frekar ættuð þið að ala dætur ykkar upp svo þær viti sjálfar hvaða mannkostir eru æskilegir eða óæskilegir. Þannig geta þær passað sig sjálfar því þið getið ekki alltaf verið á staðnum.“
Það sé í mörg horn að líta þegar börn eru alinn upp. Foreldrar þurfi að búa yfir tilfinningagreind, komast yfir eigin áföll, það þurfi að passa fjárhaginn og margt annað. Það sem sé þó mikilvægast sé sambandið við börnin.
„Þú ert fyrsta sambandið sem barnið þitt mun eiga. Hvernig ætlar þú að kenna þeim að elska og treysta? Þegar barnið talar um þig við vini eða maka í framtíðinni, hvað mun það hafa að segja um þig sem föður? Hver ætlar þú að vera í ævisögu barns þíns? Hugsaðu um þessa spurningu á hverjum degi.“
@girldad_e Real talk, we need real talk. Check that trauma as early as possible so you don’t perpetuate your hurt to your wife or your babies. Seek therapy, seek God, seek change my guy. You’re not responsible for what happened to you, but you are responsible for your present and future. Make that change everyday! Offended? *Read caption below* #girldad #daddy #fatherhood #men #mentalhealthawareness #therapy ♬ I Got 5 On It (Instrumental) – Luniz