Þeir ræddu um frétt sem kom fyrr í vikunni, að lögreglan hafi hætt rannsókn á þremum ofbeldismálum gegn fjölmiðlamanninum Sölva Tryggvasyni.
Simmi virtist hafa sterkar skoðanir á málinu. „Sölvi vann ekki neitt, Sölvi skíttapaði í leik sem hann tók ekki þátt í,“ sagði hann.
„Nú ertu að stíga inn á sprengjusvæði,“ sagði Hugi.
„[Sölvi] lenti í slaufun 2021 og eftirminnilega grét ég með honum sem var alveg ákveðið sjokk fyrir mig. En sko, þarna var einmitt þessi saga sem gekk um að hann átti að hafa keypt þjónustu vændiskvenna og gengið í skrokk á þeim. Svo kom í ljós, að Sölvi var ranglega bendlaður við brot sem Vilhjálmur Freyr Björnsson framdi og var sakfelldur fyrir í fyrra,“ sagði Simmi í þættinum.
Catalina Ncogo, sem var dæmd fyrir milligöngu um vændi árið 2010, sakaði Sölva í maí 2021 um að hafa beitt konur ofbeldi.
Sjá einnig: Catalina sakar Sölva um ofbeldi gegn konum
Simmi Vill gaf í skyn að Catalina hafi átt sökött við Sölva.
„Það sem menn vita ekki er að þegar Sölvi var fjölmiðlamaður […] þá gerði hann einmitt frétt sem uppljóstraði svolítið starfsemi Catalinu,“ segir hann.
„Auðvelt að finna tenginguna á milli að hún hafði kannski ástæðu til að reyna að klína á hann eitthvað.“
„Þetta er barátta sem á aldrei að hætta,“ sagði Hugi
„Hvað, að slaufa?“ sagði þá Simmi.
„Ekki að slaufa. Heldur að berjast fyrir að svona ofbeldi líðist ekki,“ svaraði Hugi.
„Ég er sammála, en þá verður ofbeldið að vera til staðar. Byrjum þar. Ég veit til þess að inn á vefsíðu, einhverri spjallsíðu, var nafn mitt á einhverjum tíu manna lista þar sem var spurt: „Vitið þið eitthvað um þessa menn?“ Ég fékk skjáskot af þessu. Ég man ekki hvaða síða þetta var, skiptir ekki máli,“ sagði Simmi.
Simmi spyr hvort samfélagið sé betra nú eftir að Sölva var slaufað. „Ég spyr!“ sagði hann.
Sölvi tók sér rúmlega hálfs árs pásu frá hlaðvarpsþáttagerðinni og sneri aftur í desember 2021. Síðan þá hefur hann verið með þættina í áskrift.
Simmi Vill og Hugi ræða nánar um slaufun, mikilvægi MeToo byltingarinnar og fleira í þættinum sem má hlusta á hér að neðan. Í lýsingu þáttarins líkja þeir máli Sölva við Lúkasarmálið.
„Enn eitt Lúkasarmálið sem þjóðin þarf að kyngja eftir að hafa farið fram í offorsi.“