Leikarinn Josh Duhamel hefur ekki rætt mikið um skilnað sinn og söngkonunnar Fergie. Enda einkamál sem fólk ræðir bara opinberlega ef það svo kýs. Þau Fergie og Josh voru áberandi par, enda var Fergie hluti af einni vinsælustu sveit heims á þeim tíma, Black Eyed Peas. Þau byrjuðu fyrst að stinga saman nefjum árið 2004 eftir að Black Eyed Peas komu fram í þætti Duhamel, Las Vegas. Árið 2017 skildu þau svo að borði og sæng en gengu frá lögskilnaði árið 2019, rétt eftir 10 ára brúðkaupsafmælið.
Duhamel viðurkenndi í viðtali í vikunni að hann átti erfitt með þá gífurlegu athygli sem samband þeirra vakti. Hann kæri sig síður um athygli sem þessa og sé meira fyrir rólegheit.
„Ég held að ég hafi aldrei vanist því. Ég saknaði einfalda og auðvelda lífsins sem ég var vanur. Ég er ekki mikið fyrir að koma fram á rauðum dregli og gera allt þetta sem fylgir Hollywood-lífinu.“
Duhamel segir að þó skilnaður sé alltaf erfiður þá sé hann búinn að sætta sig við hann. Í dag á hann í góðu sambandi við fyrrverandi eiginkonuna, en þau eiga saman eitt barn.
„Við áttum góða tíma, en ég held að við höfum hreinlega fjarlægst hvort annað með tímanum og á endanum áttum við lítið sameiginlegt.“
Til dæmis hafi Duhamel alltaf viljað flytja aftur til North Dakota þar sem hann ólst upp, en þar hafi hann viljað verja sínum efri árum. Hann hafi þó alltaf vitað að Fergie ætti heima þar.
Svona hlutir séu erfiðir og leiðinlegir en það þýði ekkert að velta sér upp úr því. Sundur geti þau betur lifað því lífi sem henti þeim sjálfum. Hann hafi farið aftur til Dakota og Fergie geti lifað Hollywood lífi sínu.
„Að hafa þennan stað hér hefur gert mér kleift að finna aftur barnið innra með mér sem elskaði náttúruna. Varð ástfanginn af útiveru, var skapandi og almennt virkur.“
Duhamel er nú giftur Audra Mari og eiga þau von á sínu fyrsta barni saman. Honum og Fergie er enn vel til vina og skrifaði hún til dæmis á Instagram að hún sé ánægð fyrir hans hönd með væntanlegan erfingja og geti ekki beðið eftir því að sonur hennar og Duhamel eignist systkini.