Norðmaðurinn Jon Fosse er handhafi bókmenntaverðlauna Nóbels árið 2023, en tilkynnt var um valið í morgun. Fosse er 64 ára en eftir hann liggja fjölmargar bækur og leikrit.
Jon hefur skrifað skáldsögur, ljóðabækur, barnabækur og ritgerðasöfn og þá er hann afkastamikið leikritaskáld og hafa verk hans meðal annars verið sviðsett á Íslandi.
Fosse er margverðlaunaður höfundur og fékk hann til dæmis Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2015 fyrir þríleikinn Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja. Þríleikurinn kom út hér á landi í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar.