Hún leitaði í Facebook-hóp þar sem bara konur eru meðlimir, sem er svipaður og vinsæli íslenski Facebook-hópurinn Beauty Tips. Það kom henni verulega á óvart að konurnar hafi skipst í fylkingar og að þetta hafi leitt til svaka rifrildis á miðlinum.
Zoe Kowald er 31 árs einhleyp kona í leit að ástinni. Hún er með aðgang á stefnumótaforritinu Hinge og fékk þar skilaboð frá karlmanni sem vildi gefa henni ráð, sem hún hafði ekki beðið um.
Maðurinn skrifaði þetta um mynd af henni:
„Hæ Zoe. Ég vildi bara láta þig vita að það eru myndir eins og þessar sem fæla virðulega karlmenn – sem kunna að halda uppi samræðum – í burtu. Þú laðar að þér gaura sem vilja bara sofa hjá þér. Eigðu góðan dag.“
Kowald sagði í samtali við News.com.au að hún sé á stefnumótasíðum í leit að ástinni. Hún sagði að hún hafi stillt sér svona upp á myndinni því henni fannst það „eðlilegast“ og að hún hafi alls ekki búist við þessum viðbrögðum.
„Skilaboðin hans gáfu mér sömu tilfinningu og: „Hún var í þessum fötum, þannig hún átti þetta skilið.““
Skilaboð hans komu henni svo á óvart að hún ákvað að leita til kynsystra sinna í ónefndum Facebook-hóp. Hún bað konurnar um að seta „like“ eða þumal við myndina ef þær væru sammála honum og hjarta við myndina ef þær væru ósammála honum.
983 konur sögðust vera ósammála skilaboðum mannsins en það sem kom Kowald á óvart var að 337 konur sögðust vera sammála honum.
Það logaði í athugasemdakerfinu, svo mikið að það varð að loka því og þurftu stjórnendur hópsins að eyða út athugasemdum.
„Það var athugasemd frá einhverri sem sagðist vera sambandsráðgjafi eða eitthvað, og hún sagði að hann hefði haft rétt fyrir sér og að ég myndi ekki laða að mér almennilegan karlmann,“ sagði Kowald og bætti við að hún hafi verið í áfalli yfir viðbrögðum kvennanna.
Kowald ætlar ekki að eyða myndinni og ætlar að halda áfram að leita að hinum eina rétta.