Til að byrja með er best að byrja á því að velja hvaða land þig langar til að heimsækja, að sögn Siggu Daggar.
„Þú byrjar á því eiginlega að velta fyrir þér landinu. Í flestum löndum í kringum okkur eru margar tegundir af kynlífsklúbbum. Þannig þetta er svolítið svona; hvert langar mig að fara, hvaða land langar mig að heimsækja? Og svo eru alls konar klúbbar í boði,“ segir hún.
Það er úr nógu að velja á ferðamannastöðum sem eru vinsælir hjá Íslendingum. „Það er í rauninni svolítil breidd af klúbbum til í flestum löndum. Reyndar ekki í Skotlandi, þannig Skotland er ekki góður staður til að byrja á. London er geggjuð borg, Berlín, nokkrir klúbbar í Kaupmannahöfn. Bara flest löndin í kringum okkur,“ segir hún og nefnir einnig Frakkland og Ítalíu.
Næst ættu áhugasamir að velta fyrir sér er hvernig klúbb þá langar að heimsækja. „Er klúbburinn sem þú ert að spá í meiri skemmtistaður eða spa? Ég myndi mæla með að prófa báðar útgáfunar því þetta er allt öðruvísi stemning.“
„Ef þú ert að fara á spa klúbb geturðu hugsað að hann sé svona eins og nektarspa í Þýskalandi, en fólk fær yfirleitt sloppa eða handklæði sem það getur sveipað um sig svo þú þarft ekki að vera alveg nakin. Yfirleitt er ekki alveg nekt, heldur bara á þeim stöðum þar sem er verið að stunda kynlíf. Og oft er það á afviknum stað þannig ekki endilega fyrir allra augum,“ segir hún.
„En svo eru staðirnir sem eru skemmtistaðir, þá er fólkið skemmtistaðaklætt og þá aftur er líka svolítið hólfaskipt. Þannig þú getur verið á dansgólfinu, á barnum og það er ekkert allt í einu kynlíf að fara að byrja við hliðina á þér. Það er svolítið svona: Hér er ekki verið að „leika“, eins og það er kallað, heldur er það annars staðar gert.“
Sigga Dögg segir að þú þarft ekki að stunda kynlíf þó þú heimsækir kynlífsklúbb.
„Þú þarft aldrei að stunda kynlíf. Eins og með spa klúbbana, þar geturðu farið í heitan pott, í laug eða sólað þig. Það er aldrei gerð krafa um kynlíf og það er rosalega passað upp á að enginn upplifi pressu. Það er mikil gæsla til dæmis, starfsfólkið gengur mikið um, spjallar við mann, kynnir sig og fer yfir reglur staðarins ef þú ert að koma í fyrsta sinn. Það er ekki í boði að mæta á sneplunum og vera í brjáluðu stuði,“ segir hún og bætir við að oftast þurfa gestir að fylla út einhver eyðublöð og stundum sýna vegabréf eða ökuskírteini.
„Það er eitt við þessa staði, það er mjög lítið af óskrifuðum reglum,“ segir hún og bætir við að það sé vegna þess að það eru strangar reglur á stöðunum sem er tryggt að gestir fylgi.
„Það eru ákveðnar reglur sem þú þarft að lesa yfir áður en þú færð að fara inn á staðinn og það er beðið á meðan þú ferð yfir hverja einustu reglu og þú þarft að jánka að þú skiljir þessar reglur og ætlir að fara eftir þeim, og að þú hafir samband við starfsfólk ef þér líður eins og einhver sé að brjóta reglurnar eða ónáða þig. Þannig fyrst og fremst er það bara að vera kurteis og koma vel fram við aðra, sýna fólki virðingu og átta þig á að þú setur mörk, en þarft líka að virða mörk annarra. Þetta er miklu afslappaðri stemning heldur en bara niður í bæ á bar.“
Þú ert búin að velja stað og hvað svo, hvað er það fyrsta sem þú gerir þegar þú heimsækir kynlífsklúbb?
„Það fer eftir því hvernig klúbburinn er og hvernig klæðareglur eru. Oft er það fyrsta sem tekur við þér er skiptiaðstaða, sumir vilja kannski fara í einhver kynþokkafull undirföt, ef klúbburinn bíður upp á það. Stundum er það bara að labba inn, skima aðeins í kringum staðinn, setjast niður og ná sér kannski í einn drykk,“ segir Sigga Dögg en tekur fram að það séu reglur varðandi áfengisneyslu og venjulega er tveggja drykkja hámark.
„Það er eiginlega bara að sjá stemninguna, fá fílinginn fyrir staðnum og labba um. Ég hef alveg labbað inn á klúbba og fundið strax að ég væri ekki að fíla þá og farið, það er engin skuldbinding. Og svo hef ég farið á klúbb þar sem mér hefur fundist fólkið svo skemmtilegt, lent á spjalli við hin og þessi pör.“
Sigga Dögg heldur úti vefsíðunni betrakynlif.is þar sem er hægt að nálgast fyrirlestra og myndbönd um kynlífsklúbba, og ótal margt annað kynlífstengt. Það er hægt að skrá sig í áskrift en einnig leigja stök myndbönd á leiga.betrakynlif.is.
Hér má sjá myndböndin sem Sigga Dögg hefur gert um hina ýmsu kynlífsklúbba víðs vegar um heiminn.
Hún heldur einnig úti vinsælli Instagram-síðu sem má nálgast hér.
Kynfræðingurinn sló í gegn með uppistandið Sóðabrók segir frá á bóndadaginn síðastliðinn og verður aftur með uppistand á konudaginn og Valentínusardaginn. Miða má nálgast hér.