Steingrímur Viktorsson greindist nýlega með blöðruhálskirtilskrabbamein og er það í fyrsta sinn sem hann er greindur með krabbamein. Steingrímur, sem er fæddur árið 1949, á engu að síður að baki langa sögu slysa og sjúkdóma. Segir hann að krabbameinið sé áttunda meinið hans. Steingrímur er blanda af hraustmenni og sjúklingi og hefur aldrei dregið af sér við erfiðisvinnu í gegnum tíðina. Sjúkdómum sínum hefur hann mætt með æðruleysi og stundum með grallaraskap. Hrakfallasöguna rekur hann allt aftur til ársins 1983 er hann féll af hestbaki:
„Hestur féll með mig á harða klöpp. Ég tognaði illilega á vinstri ökkla og þurfti að vera í gifsi í sex vikur, mátti ekki stíga í fótinn. Afleiðingin af þessu varð sú til lengri tíma að ég skekktist í skrokknum.“
Steingrímur féll aftur af hestbaki árið 2000. „Hestur stökk með mig yfir pípuhlið svo ég féll í götuna og höfuðkúpubrotnaði. Það var lán í óláni að ég var ekki með hjálminn minn því hann hefði klippt sundur mænuna, nokkuð sem kom fyrir annað fólk sem lamaðist fyrir neðan mitti eftir slíkt. Ég fékk heilablæðingu við þetta slys og var um tíma vart hugað líf. Ég tapaði minni við þetta, jafnvægisskyni, sem og bragð- og þefskyni. Eftirköstin eftir þetta slys eru sífellt suð í höfðinu og ég þoli illa hávaða.“
Steingrímur rifjar upp óhapp af öðrum toga. Oft getur hann lesið lán í óláni úr aðstæðunum og telur sig vera heppinn mann, þrátt fyrir hrakfallasöguna. Það á við um þetta atvik:
„Árið 1986 starfaði ég sem verkstjóri í kjúklingasláturhúsi. Klórsprenging varð í húsinu og allt starfsfólk hraðaði sér út. Þá tók ég eftir því að einn starfsmanninn vantaði svo ég brá mér inn aftur til að leita hans. Hann kom út úr húsinu um annan útgang um leið og ég fór inn aftur. Afleiðingin fyrir mig af þessu uppátæki var lungnaþemba sem hefur háð mér lengi. En það góða var að hún leiddi til þess að ég hætti að reykja. Þetta var auðvitað algjört brjálæði og ég vissi ekki hvað ég var að gera, vissi ekki hvar strákurinn var. En það var gott að þetta knúði mig til að hætta að reykja,“
Steingrímur hefur í rúma tvo áratugi búið í Hveragerði og unir sér þar afskaplega vel. Hann er hins vegar úr Vesturbænum í Reykjavík, nánar tiltekið úr Skjólunum. Er hann þá KR-ingur?
„Ég fór í glímu og Sigtryggur vann. Svo það gekk ekki meira,“ svarar hann og skellihlær. Svo bætir hann við: „Ég hef alltaf verið sveitamaður í mér, foreldrarnir skildu ekkert í því. Þegar ég var sjö ára talaði ég mig sjálfur í sveit, ég lagði svo hart að bóndakonu að taka við mér að hún sagði við mömmu, ég verð að taka strákinn, hann hefur svo mikinn áhuga á þessu. Sveitastörf hafa verið mitt líf og yndi.“
„Ég fór í bændaskóla og líka verslunarskóla. Svo lærði ég kjötiðnað. Ég segi stundum í gríni að ég kunni þetta allt frá haga ofan í maga. Ég er búfræðingur og er því bæði lærður og af guðs náð. Ég náði aldrei að reka býli sjálfur en ég bjó á sveitabæ í þrjú ár austur í Landeyjum, var þar bara leiguliði, en konan vann á Hvolsvelli. Ég var mikið í hestaferðum um hálendið, svo var ég að vinna á bæjunum að hausti til í úrbeiningum og slátrun. Síðan stundaði ég tamningar frá áramótum fram á sumar.“
Steingrímur hefur glímt við vaxandi heilsubrest á efri árum en er hraustmenni að upplagi og hefur unnið mikla líkamlega vinnu. „Ég hef stundað sjómennsku, úrbeinað kjöt, stundað tamningar, þetta er allt erfiðisvinna og ég hef svo sem aldrei verið að hlífa mér.“
„Heilsan fer að hamla mér verulega upp úr 2010. Þá fæ ég kransæðastíflu og ýmislegt gerist í kjölfarið. Ég fer í hjartaþræðingu og eftir hana á blóðþynningarlyf. Ég hafði verið á sterku verkjalyfi og læknirinn gætti ekki að lyfseðlinum mínum. Að taka blóðþynningarlyfið með verkjalyfinu var eitur og útkoman var blæðandi magasár. Ég segi því stundum að ég hafi fengið blæðandi magasár í boði Landspítalans.“
Aðspurður segist Steingrímur vera ánægður með margt í heilbrigðiskerfinu en síður með annað. „Ég gat ekki verið sáttur við það að áður en ég komst í liðskiptaaðgerð var ég búinn að staulast um á tveimur hækjum mánuðum saman og var orðinn úrkula vonar um að komast í aðgerð. Ég leitaði til Klíníkurinnar og þeir rannsökuðu mig í þaula. Svo hringdu þau stuttu síðar og sögðu því miður, við getum ekki tekið þig af því þú ert með mikið af undirliggjandi sjúkdómum, þú ert lungnaveikur og hjartveikur og það verður að vera gjörgæsludeild við hliðina þar sem liðskiptin fara fram. En ég var heppinn upp úr þessu, að því leytinu að Klíníkin sendi öll gögn um mig á Landspítalann og eftir það fóru málin að hreyfast á Landspítalanum. Covid spilaði reyndar inn í og tafði líka en ég komst loks í aðgerðina.“
Steingrímur segir að flöskuhálsar og langir biðlistar séu líklega versti vandinn í heilbrigðiskerfinu. Hann er hins vegar ánægður með heimilislækninn sem grunaði sterklega að hann væri kominn með blöðruhálskirtiskrabbamein og hafði rétt fyrir sér. „Ég var alveg orðinn viss um að ég yrði útundan með krabbamein,“ segir Steingrímur og hlær. Hann á það til að taka sjúkdómunum með groddalegum húmor. „Það þýðir ekkert annað en að leyfa sér að vera stundum bjánalegur í þessu.“
„Ég var kominn með mikinn þvagleka og leitaði til heimilislæknisins. Hann áttar sig eins og skot á hvað var í gangi, lætur mig fá töflu og sendir mig í blóðprufu. Hann átti kollgátuna og þetta greindist í mér um síðustu áramót.“
En hvernig gengur glíman við krabbann? „Sem betur fer var þetta ekki búið að dreifa sér. Ég var að klára geislameðferð og held ég sé orðinn nokkuð góður. Ég fæ sérstakar kvenhormónasprautur og verð svolítið eins og kona á breytingaskeiðinu, kófsvitna og verð kolómögulegur. Ég hef átt í vandræðum með pisseríið, það liggur við að ég megi ekki kyngja munnvatni án þess að verða mál að pissa.“
„Ég er allur að koma til. Það er helst að ég sé mjög þreyttur á kvöldin en það er eðlilegt. Læknirinn segir að það taki minnst hálfan mánuð að ná fyrri styrk eftir geislameðferðina.“
Steingrímur er öryrki eftir að ýmis mein, gömul og ný, hafa sótt á hann. Hann segir kjör öryrkja ekki góð og ekki megi gleyma að töluverður kostnaður vegna læknisheimsókna og lyfjakaupa fylgi þessu hlutskipti. „Maður þarf alltaf að borga eitthvað og sleppur ekki frá þessu. Það má segja að maður hafi fórnað heilsunni fyrir peninga og svo þegar heilsan er horfin þarf maður að eiga peninga til að endurheimta hana. Ég fór til dæmis í tvær dýrar aðgerðir, sprautu í bakið, svo mér liði betur, verkirnir minnkuðu og ég gæti gert eitthvað. Það gagnaðist en dugði bara í fjóra mánuði, svo var það búið.“
En er hann aldrei bitur yfir öllum óhöppunum og sjúkdómsgreiningunum sem hafa mótað ævi hans?
„Ég veit ekki, maður spyr stundum, hvað ef ég hefði ekki gert þetta? Helst sækja þær hugsanir á mig út af lungnaþembunni en það var auðvitað brjálæði af mér að steðja aftur inn í sláturhúsið á sínum tíma. En aðallega hugsa ég með mér að sumir hafa það verr en ég, eru til dæmis í hjólastól.“
Steingrímur er giftur Arnfríði Ólafsdóttur og hafa þau eignast þrjá drengi. Þau eiga sex barnabörn og tvö barnabarnabörn. „Ég segi alltaf að ég eigi þrjá stráka þó að einn hafi dáið þegar hann var sex ára,“ segir Steingrímur og rifjar þar með upp enn eitt áfallið á ævi sinni. „Við eignuðumst hann og hann er drengurinn okkar líka,“ bætir hann við.
Hjónabandið hefur verið farsælt og ólíkt honum sjálfum er Arnfríður heilshraust sem og afkomendurnir. Steingrímur unir sér afskaplega vel í Hveragerði og vill hvergi annars staðar vera.
„Fyrir mig og mína dreifbýlishugsun þá er þetta kjörið svæði. Ég bjó lengi á Selfossi en ég segi stundum við mína gömlu félaga þar að ég komi ekki til baka nema í láréttri stöðu. Hérna í Hveragerði er opið í allar áttir og þegar ég er á hestbaki þá get ég riðið í allar áttir án þess að trufla bílaumferðina, það get ég ekki á Selfossi.“
Reykjavík hefur aldrei togað í Steingrím en hann lítur björtum augum til framtíðarinnar. „Ég er genginn í Krabbameinsfélag Árnessýslu og þar er manni tekið opnum örmum.“
Steingrímur lofar líka kynni sín af osteopatanum Victori Ingva. „Í svartasta skammdeginu birti til í minni tilveru og það svo rækilega að ég trúi nú sögusögnum um Jesú Krist. Í október í fyrra fór ég í tíma til Victors Ingva og gekk þá við tvær hækjur. Hann sagði: „Næst þegar þú mætir til mín þarftu ekki að nota hækjunar.“ Það stóðst og þetta færði mér hamingju. Ég nýt þess að lifa,“ segir Steingrímur Viktorsson sem hefur marga fjöruna sopið.