Bandarísk kona sem heitir Barbara Oppenheimer, kölluð Barbie, hefur verið að lenda í talsverðum erfiðleikum undanfarið þar sem hún heitir það sama og tvær vinsælustu myndir ársins; Barbie og Oppenheimer.
Eiginmaður Barböru Oppenheimer er skyldur J. Robert Oppenheimer, sem samnefnd kvikmynd fjallar um.
Í nýlegu viðtali við Slate sagði hún að vinsældir kvikmyndanna hafi flækt aðeins tilveru hennar. Til að mynda eigi hún erfitt með að bóka hótelherbergi þar sem starfsfólk heldur að hún sé að hrekkja það.
Hún lætur þetta ekki trufla sig heldur hefur lúmskt gaman af þessu og sagðist hafa verið mjög hrifin af báðum kvikmyndunum.
Það má til gamans geta að fullt nafn Barbie dúkkunnar er Barbara Millicent Roberts, nefnd eftir dóttur Ruth Handler, konunnar á bak við vinsælu dúkkuna.