Mjúka hörkutólið Danny Trejo fagnaði stórum áfanga í lífinu sínu nýlega, en hann hefur náð 55 árum án áfengis- og vímugjafa. Fyrir það má hann þakka, enda hafði edrúmennskan í för með sér að líf hans gjörbreyttist til hins betra.
Það vita það kannski ekki allir en leikarinn, sem er 79 ára, á fremur skrautlega fortíð að baki. Þegar eiginmaður móður hans gekk í herinn til að berjast í seinni heimsstyrjöldinni tók móðir hans hliðarspor eftir að kynnast Dionisio Trejo á dansleik. Úr því sambandi varð Danny til. Fljótlega eftir að leikarinn fæddist var hann kominn á flótta með föður sínum sem var eftirlýstur fyrir hnífsstungu. Eftir ár á flótta gaf faðir hans sig fram við lögreglu og Danny fluttist til ömmu sinnar. Hann beygði fljótt af beinu brautinni og hafði ánetjast fíkniefnum aðeins átta ára gamall. Fyrst var það bara gras, en 12 ára gamall tók heróínið við og kókaínið slóst í hópinn þegar Denny var 18 ára. Samhliða þessu fylgdu smáglæpir og slagsmál og mátti Danny verja töluverðum tíma á bak við lás og slá. Hann greinir sjálfur frá því að hann hafi afplánað í minnst sex fangelsum.
Hann vann fyrir sér sem handrukkari og dópsali en í gegnum þau störf varð hann ítrekað vitni af hrottalegum ofbeldisbrotum, þar á meðal morði. Þegar hann sat inni hafði hann ofan af fyrir sér með því að stunda hnefaleika. Danny segir sjálfur að útlit hans hafi stuðlað að því að hann varð fíkill og glæpamaður, hann hafi hreinlega litið þannig út svo það eðlilega var að leiðast út á þá braut.
24 ára gamall lauk hann afplánun í seinasta sinn. Þá ákvað hann að taka til í sínum málum og fór að vinna við hefðbundnari störf, svo sem við garðyrkju, sölumennsku og seinna við fíkniefnaráðgjöf. Hann helgaði líf sitt því að hjálpa fólki eftir afplánun og í bata frá fíkn og það var í gegnum þau störf sem Hollywood uppgötvaði hann. Kom á daginn að útlit Danny hentaði ekki bara í glæpi heldur einnig í að leika glæpamenn og eftir þetta varð ekki aftur snúið.
„Mér hefur tekist, með guðs náð, að vera edrú í 55 ár í dag. Ég hef tekið þetta einn dag í einu og fyrir alla sem eiga erfitt þarna úti – ÞIÐ GETIÐ ÞETTA LÍKA“
Danny hefur talað opinskátt um baráttu sína við fíkn í gegnum árin. Hann gerði meðal annars grín að því að í 12 spora kerfinu hafi honum verið sagt að ef hann hætti að mæta á fundi þá myndi hann deyja, verða brjálaður eða enda í fangelsi. Þetta hafi staðist upp á hár, í hvert sinn sem hann hætti þá endaði hann í fangelsi.
Líf hans sé svo miklu betra í dag, hann hafi yfir engu að kvarta og ekkert sem þurfi að laga.