Feðgarnir Karl Bretakonungur og Harry prins gætu hist á fundi um miðjan næsta mánuð í tilraun til þess að freista þess að laga samband sitt sem hefur verið afar slæmt undanfarin ár. Dagskrár beggja eru annasamar en báðar verða þeir staddir á Bretlandseyjunum um miðjan næsta mánuð og þá gæti fundurinn farið fram. Ónefndur starfsmaður konungshallarinnar segir í samtali við Mirror að verið sé að undirbúa fund þann 17. september í London.
Eiginkona Harry, Meghan Markle, verður þó hvergi sjáanleg.
Ef af fundinum verður þá yrði það í fyrsta skipti sem feðgarnir hittast og ræða málin frá því í janúar á þessu ári og þeir hafa ekki hist síðan við krýningu Karls í maí þar sem samskiptin voru við frostmark.
Í byrjun árs kom út umdeild ævisaga Harry, Spare, þar sem hann uppljóstraði ýmsu um persónulega reynslu sína og Meghan af konungsfjölskyldunni en bókin féll ekki vel í kramið hjá Karli.