Öryggisvörður á ónefndu hóteli á Tenerife hefur verið lofaður í hástert eftir að myndband af honum var birt á TikTok. Í myndbandinu má sjá öryggisvörðinn ganga um sundlaugarbakka hótelsins, skrifa eitthvað niður og rífa síðan hvert handklæðið af öðru af sólbekkjum sem ekki eru í notkun. Brýtur hann handklæðin síðan saman og gengur frá á næsta borð.
„Þeir ættu að gera þetta alls staðar,“ segir sú sem tók upp myndbandið, sem tekið var upp síðasta sumar, en er enn þá að raka inn áhorfi og lofi.
@renovatewithroberta They should do this everywhere 🙌🏽#tenerife #sunbeds #tenerifecanaryisland ♬ Legends Are Made – Sam Tinnesz
Sólarlandafarar þekkja það óþolandi athæfi sem margir hótelgestir stunda að taka frá sólbekki á besta stað á sundlaugarbakkanum með því að leggja handklæði sín yfir þá. Margir hópar senda einn einstakling út af örkinni löngu fyrir fyrsta hanagal til að taka frá bekki fyrir alla. Síðan liggja bekkir jafnvel ónotaðir langt fram eftir degi, með handklæðunum á.
Í athugasemdum við myndbandið má sjá að flestum finnst þetta athæfi frekra hótelgesta óþolandi:
„Ég er sammála, fyrstur kemur, fyrstur fær.“
„Sammála, þú myndir ekki ganga inn á veitingastað og skilja jakkana eftir á stólunum til að panta sæti.“
„Hef aldrei skilið hvers vegna fólk í fríi vill fara á fætur á morgnana eldsnemma til að taka frá sólbekk, en myndu síðan tryllast ef þeim væri sagt að morgunmatur væri aðeins í boði kl. 6.00.“