Kvikmyndaþríleikurinn The Godfather telst klárlega vera klassískur og með vinsælli myndum fyrr og síðar. Myndirnar fjalla um mafíuna, en þar er fylgst með Corleone fjölskyldunni og hvernig hún reynir að afla og auka áhrif sín og völd sem og um átök við aðrar glæpafjölskyldur.
Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Matt Birkbeck hefur nú varpað ljósi á því hvernig myndunum tókst að gefa raunsæja mynd af lífi mafíósa um miðbik tuttugustu aldarinnar. Matt skrifaði bók sem kom út árið 2013 sem fjallaði um líf áhrifamikla mafíósans Russel Bufalino, sem var höfuð Bufalino-fjölskyldunnar á árunum 1959-1994.
Matt segir að síðla vetur árið 1971 hafi síminn hringt hjá Bufalino fjölskyldunni og var það lærlingur Russel, William ‘Big Billy’ D’Elia sem svaraði. Á línunni var karlmaður sem kynnti sig sem leikarann Marlon Brando og vildi hann eiga samtal við Russel. Billy taldi augljóst að þarna væri um gabb að ræða. Hann hrópaði til Russel að það væri einhver bjálfi í símanum að þykjast vera Marlon Brando.
Russel starði þó kuldalega á Billy og hvæsti á hann að rétta sér símann.
„Halló Marlon?“ sagði Russel. „Já ég er góður. Hvernig hefur þú það?“
Á þessum tíma lá fyrir að Marlon tæki að sér hlutverkið ódauðlega – Vito Corleone í myndinni The Godfather. Ferill Marlon var þarna í töluverðri lægð og hafði það verið umdeild ákvörðun að ráða hann í þetta hlutverk. Hann ákvað að undirbúa sig vel og fá innblástur til að geta gefið hlutverkinu góð skil. Hann hafi því leitað logandi ljósi af rétta aðilanum til að fræða sig um mafíuna og á endanum varð Russel fyrir valinu. Og Russel var heldur betur til og ekki nóg með það heldur ákvað hann að láta til sín taka á fleiri sviðum hvað myndina varðar og til dæmis átti hlut í að leysa illvígar deilur sem höfðu tafið fyrir framleiðslu myndarinnar og um tíma virtust ætla að gera út af við myndina áður en hún var frumsýnd. Russel var virkilega áhugasamur um myndina sem byggði á samnefndri metsölubók eftir Mario Puzo.
Og Russel var ekki eini mafíósinn sem kom við sögu við gerð myndarinnar. Þarna höfðu nýlega verið stofnuð hagsmunasamtök ítalskra Ameríkanar en fyrir þeim hóp fór mafíósinn Joe Colombo sem var höfuð fjölskyldu sinnar. Colombo sagðist berjast gegn fordómum gegnum Ameríkönum af ítölskum uppruna og héldu samtökin fjáraflanir sem skiluðu töluverðum ágóða. Fjölmiðlar höfðu verið óvægir í umfjöllun sinni um samtökin og sakað þau um fjárkúgun og ofbeldi. Samtökin brugðust ókvæða við þeirri gagnrýndi og mótmæltu fyrir framan skrifstofu fjölmiðla, réðust gegn dreifingaraðilum blaða og beittu ofbeldi. Samtökin höfðu heyrt um Godfather myndina og voru ekki ánægð þar sem þar væri verið að fjalla um ítalska Ameríkana með neikvæðum hætti. Samtökin hótuðu aðilum sem komu að framleiðslunni og skipuðu þeim að hverfa frá verkefninu, því annars væri voðinn vís.
Á endanum afréðu framleiðendur myndarinnar að funda með Colombo. Á einum slíkum fundi voru Russel og Billy einnig viðstaddir en þar var samtökunum boðið að orðið mafía yrði fjarlægt úr handriti myndarinnar, samtökin fengu eina milljón dollara í sinn hlut og kvikmyndaverið myndi hætta sölu á Godfather borðspilinu sem og lofa því að halda frumsýninguna í New York. Russel hafi litist vel á það boð, og þá sjálfkrafa var Colombo líka sáttur. Russel hafi elskað að myndin fjallaði ekki um spillta Ítala heldur spillt samfélag.
Starfsmaður kvikmyndaversins sem kom að áðurnefndu samkomulagi fékk þó að fjúka þar sem stjórnendur Paramount kvikmynda voru ekkert alltof sáttir með að hafa nú gert samning við mafíuna og að fulltrúi þeirra hafi komið fram á blaðamannafundi með mafíunni líka. En samkomulagið hélt og framleiðsla gat hafist að nýju þar sem samtök Colombo voru ekki lengur að gera allt vitlaust, og áðurnefndur starfsmaður var snarlega ráðinn aftur.
Meðlimir mafíunnar fylgdust vel með framgangi og tókst jafnvel sumum að lauma sér inn í myndina í minni hlutverk. Russel varði svo miklum tíma með Marlon til að sýna honum hvernig mafíósalífið gengur fyrir sig, hvernig hann ætti að tala, hvernig hann ætti að hegða sér, og annað slíkt. Flest af þessu nýtti Marlon sér í hlutverki sínu og ef hann hafði einhverja spurningu sem hann þurfti svar við, þá hringdi hann umsvifalaust í Russel. Marlon var líka meðvitaður um að þó hann væri fræg kvikmyndastjarna þá væri mafían ekkert lamb að leika sér við og honum bæri að sýna henni virðingu.
Eftir langan tökudag er Marlon, sem hafði verið að drykkju allan daginn, sagður hafa gyrt niður um sig buxurnar til að sýna öllum á tökustaðnum þjófhnappana. Hann hafi svo strax áttað sig á því að meðal viðstaddra væru aukaleikarar sem tengdust fjölskyldu Russel. Við þetta varð hann frá sér af hræðslu. Hysjaði upp um sig og lét það berast að hann hafi með engu ætlað að vanvirða Russel.
Ofangreint byggist á umfjöllun New York Post þar sem farið er yfir kafla úr bók Matt Birkbeck – The Life We Chose: William ‘Big Billy’ D’Elia and The Last Secrets of America’s Most Powerful Mafia Family, sem kemur út á þessu ári.