Nemendur 8. – 10. Bekkjar Brekkuskóla á Akureyri unnu myndbandasamkeppni Siljunnar. Ungmennin áttu að gera myndband um bók sem þau höfðu lesið nýlega og völdu þau bókina Dóttir hafsins. Bókin sem kom út árið 2020 er frumraun Kristínar Bjargar Sigurvinsdóttur og sú fyrsta í þríleiknum Dulstafir. Dóttir hafsins fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og unglingabóka árið 2020, og önnur bókin, Bronsharpan sem kom út árið 2022, hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna.
„Ég var að frétta svolítið skemmtilegt! Sigurmyndbandið í myndbandasamkeppninni Siljunni í aldurshópi 8-10 bekkjar var gert um Dóttur hafsins og það voru snillingarnir í Brekkuskóla á Akureyri sem unnu! Krakkarnir áttu að gera myndband um bók sem þau höfðu lesið nýlega og mikið ótrúlega er þetta flott hjá þeim! Þarna eru þvílíkir hæfileikar á ferð og myndbandið er algjörlega brillíant!,“ segir Kristín í færslu á Facebook.
Í umsögn dómnefndar segir: „Myndin í heild sinni er alveg framúrskarandi. Staðsetningar í tökum, hljóð, búningar, myndataka frábær. Allar hljóðbrellur juku á áhrif myndarinnar og handritið mjög gott sem gerði sögunni góð skil. Tónlistin passaði mjög vel við og klipping myndarinnar sem hvoru tveggja jók á áhrif sögunnar.“