Þann 5. október 2003 voru Timothy Treadwell og kærasta hans, Amie Huguenard, rifin á hol af 300 kilóa grábirni. Og það sem meira er, hinn hræðilegi dauðdagi þeirra er til á upptöku.
Timothy var þekktur sem Grizzly Man, eða Bjarnamaðurinn, vegna ástríðu sinnar fyrir þessari tegund dýra. Hann var mikill umhverfisverndarsinni og vann að heimildarmynd um grábirni í Katmai þjóðgarðinum í Alaska þegar hann lést.
Þrettán ár með böngsum
Upphafið að endinum var árið 1980 þegar að Timothy hóf að tjalda á sumrin í Alaska til að fylgjast með björnunum. Þrettán sumur í röð hélt hann áfram að tjalda með fram Katmai-ströndinni sem er þekkt byggð grábjarna. Hann fór einnig vítt og breitt um fylkið til að fá sem bestan skilning á stofninum í Alaska.
Timothy elskaði birnina og var alls óhræddur við það. Á ferðum sínum fór hann afar nálægt þeim, reyndi að eiga við þá samskipti, og tók allt upp. Hann átti það jafnvel til að snerta birnina og leika við húnana. Hann gætti þess vel að ögra þeim ekki og skapa traust þeirra.
Með árunum fylgdust sífellt fleiri með myndefninu sem Timothy gaf út og öðlaðist Bjarnamaðurinn miklar vinsældir.
Þjóðgarðsverðir höfðu aftur á móti áhyggjur af öryggi Timothy og margsögðu honum að um villt dýr væri að ræða, dýr sem næðu allt að 500 kílóa þyngd. Það væri óumflýjanlegt að þau myndu snúast gegn honum á einhverjum tímapunkti, enda ekki í þeirra eðli að umgangast fólk.
Áhyggjur aukast
Árið 1998 fékk Timothy harðorða aðvörun frá þjóðgarðsyfirvöldum fyrir geymslu á mat í tjaldi sínu. Sögðu þau hann ekki nógu vel einangraðan og gæti laðað að hungruð og hættuleg dýr.
Það var meira að segja sett ný regla, einvörðungu vegna Timothy, kölluð Treadwell reglan en samkvæmt henni verður að flytja tjald sitt um að 1,5 kilómetra á fimm daga fresti til að forðast of náin samskipti við birnina.
En Timothy lét þetta sem vind um eyru þjóta og kvaðst þekkja birnina, þeir væru vinir hans og myndu aldrei skaða hann.
Það reyndist vera rangt
Kaus birni fram yfir menn
Í október 2003 var Timothy í þjóðgarðinum ásamt kærustu sinni, Amie. Hann var venjulega farinn þaðan þetta síðla árs en ákvað að dvelja aðeins lengur til að fylgjast með uppáhalds birnunni sinni.
Timothy var farin að dvelja æ meira fjarri mannabyggðum og sögðu vinir og ættingjar að hann væri að fjarlægjast þá. Timothy viðurkenndi að honum liði mun betur í náttúrunni en manna á meðal og kysi félagsskap bjarnanna. En Amie skildi hann og tók því vel.
Með árunum hafði Timothy einnig gengið sífellt lengra í samskiptum sína við birnina og töldu þeir sem til þekktu í þjóðgarðinum að það væri tímaspursmál hvenær hann gengi of langt.
Í október eru birnirnir að safna fæðu fyrir vetrarhíði, og þar sem baráttan um mat er mikil þeirra á meðal, eru þeir mun árásargjarnari en ella. Þetta vissi Timothy en samkvæmt reglu garðsins mátti hann hvorki bera vopn né sprey er heldur björnunum frá.
Hann og Amie voru því algjörlega varnarlaus.
Dýrið át hluta af þeim
Timothy og Amie létu vita af sér þann 5. október. Daginn eftir fannst tjald þeirra, sundurrifið.
Lík parsins fundust skömmu síðar, ekki langt frá. Höfuð, hluti mænu, hægri handleggur og vinstri hönd Timothy höfðu verið rifiin af honum. Lík Amie fannst skammt frá.
Þjóðgarðsverðir neyddust til að skjóta björninn sem hafði drepið þau þar sem hann bjó sig til árásar til að vernda bráð sína. Við krufningu kom í ljós að dýrið hafði þegar étið hluta af bæði Timothy og Amie.
Um var að ræða fyrsta dauðsfallið, eða dauðsföllin réttara sagt, í 85 ára sögu garðsins.
Þegar að verið var að taka saman eigur þeirra Timothy og Amie fannst myndbandsupptökuvél og á henni var sex mínútna upptaka. Upptökuvélin hafði verið í tösku og lokað fyrir lensuna svo ekkert var að sjá.
En það sem heyrðist, alveg kristaltært, var hryllilegt.
Í sex mínútur heyrast öskur parsins á meðan þau reyna árangurslaust að losna undan árás bjarnarins.
Og svo dauðaþögn.
Svo virðist sem þau hafi séð björninn koma, kveikt á vélinni en ekki náð lengra áður en björninn réðist á þau.
Upptakan aldrei opinberuð
Þjóðgarðsverðir neituðu að láta upptökuna af hendi til að tryggja að yrði ekki undir nokkrum kringumstæðum opinber. Hún var sögð of hryllileg og ætti ekkert erindi til almennings.
Þeir sem hafa heyrt hana segjast aldrei geta gleymt henni og þurftu margir þeirra er á hlustuðu að leita sér sálfræðiaðstoðar í kjölfarið.
Það er betra að hafa varann á sér gagnvart móður náttúru.