Armbönd, símar, sælgæti og aska móður eru aðeins fáin dæmi um það sem tónlistarflytjendur hafa fengið upp á svið til sín, eða í smettið, að undanförnu ein svo virðist sem að einhvers konar faraldur sé að eiga sér stað.
Tónlistarkonan Adele ákvað að hafa vaðið fyrir neðan sig á tónleikum sem hún hélt í Las Vegas á dögunum og tók hún fram að hún myndi „kála“ hverjum sem reyndi að fleygja einhverju upp á svið til hennar. Hún sagði ljóst að áhorfendur hafi gleymt kurteisisreglum og manaði hún þau til að fleygja einhverju í hana, en hún stóð á sama tíma vopnuð stuttermabolabyssu sem notaðar eru til að skjóta flíkum til áhorfenda, en Adele er þekkt fyrir að beita slíkri byssu þegar hún kemur fram í Vegas.
Í seinasta mánuði þurfti söngkonan Bebe Rexha að leita læknisaðstoðar eftir að síma var hent í andlit hennar af áhorfanda sem hélt að þetta athæfi gæti talist fyndið. Rapparinn Lil Nas X fékk ekki eins harða útreið en upp á svið til hans flaug veglegur gervilimur, honum til nokkurrar skemmtunar. Söngvarinn Harry Styles varð fyrir barðinu á sælgæti sem einhver hafði fyrir að henda í augað á honum í nóvember og söngkonunni Pink var ekki skemmt þegar hún fékk á svið til sín poka sem innihélt ösku látinnar móður aðdáanda. Einhver fleygði svo armbandi í kántrí-söngkonuna Kelsea Ballerini í seinasta mánuði og söngkonan Ava Max fékk einnig eitthvað í sig. Tónlistarmaðurinn Charlie Puth biðlaði til fólks á Twitter að láta af þessari háttsemi, þetta væri bæði vanvirðandi við flytjendur og þar að auki hættulegt.
BBC veltir vöngum yfir hvað sé að knýja áhorfendur áfram í þessari tískubylgju sem nú er í gangi. Ráðgaðist miðillinn við Lucy Bennet sem er prófessor við Cardiff háskólann og rannsakar samband milli flytjenda og aðdáenda. Hún segir að mögulega hafi afstaða fólk tekið breytingum í faraldri Covid. Fólk hafi farið að fylgjast mikið með stjörnunum á samfélagsmiðlum þar sem erfitt er að fanga athygli þeirra. En þegar einhver hendir hlutum í þig, er erfitt að hunsa þá. Þetta sé líklega það sem vaki fyrir fólki – það sé að biðja um athygli.