Phil Stringer fékk draum fjölmargra flugfarþegar uppfylltan 26. júní síðastliðinn þegar hann var eini farþeginn um borð í flugi frá Oklahoma til Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.
Flugvélin átti fyrst að fara í loftið sunnudagsmorguninn, en óveður varð til þess að yfir níu þúsund flugferðum í Bandaríkjunum var aflýst eða seinkað um helgina. Í myndbandi Stringer á TikTok segir hann að eftir því sem fluginu var seinkað aftur og aftur, alls sjö sinnum, hafi sífellt fleiri farþegar annað hvort endurbókað flug sitt eða hreinlega gefist upp á biðinni. Hann hafi þó þrjóskast við og beðið, þannig að þegar vélin hóf sig loks á loft, 12 mínútur yfir miðnætti, um 18 tímum eftir áætlaðan brottfarartíma, var hann eini farþeginn um borð.
„Ég er einn um borð og þau eru með heila áhöfn, þau vilja ekki fljúga þetta flug. Þau voru dregin af hótelinu til að fljúga með aðeins einn einstakling,“ segir Stringer. Þrátt fyrir að aðeins hafi verið einn farþegi um borð var allt ferlið með hefðbundnum hætti, flugvallarstarfsmaður sá um að færa tösku Stringer í farangursrými, hliðvörður sá um að tilkynna auðum sætum um brottförina og flugþjónn leiðbeindi farþeganum eina um öryggisatriði flugsins.
@phil.stringer♬ Makeba
Flugvélin lenti um kl. 3.35, Stringer var kominn heim um kl. 7, sturtaði sig og mætti ósofinn til vinnu. Segist hann hafa fundið til með bæði flugvallarstarfsfólkinu og áhöfninni sem ræst var af hótelinu um miðnætti fyrir þetta óhefðbundna flug. Áhöfnin virðist þó ansi kát ef marka má myndbandið.
Það skondna er að þó Stringer hafi verið einn um borð þá náði hann að verða viðskila við töskuna sína á áfangastað, hún fannst þó eftir um 45 mínútna leit.
@phil.stringer♬ Here With Me