Fulltrúar ítalskra stjórnvalda hafa boðið auðkýfingunum Elon Musk og Mark Zuckerberg að berjast í sjálfu Colloseum, hinu goðsagnarkennda rómverska hringleikahúsi. Bandaríska slúðursíðan TMZ greinir frá þessu en þar kemur fram að menntamálaráðherra Ítalíu hafi haft samband við Zuckerberg sem hafi komið skilaboðunum áfram á Dana White, forseta UFC, sem þegar fór að skoða málið nánar.
Musk staðfesti síðan að eitthvað væri hæft í orðróminum með tísti nú í morgun og bætti við að hann þyrfi að byrja að vinna í þoli sínu.
Some chance fight happens in Colosseum
— Elon Musk (@elonmusk) June 30, 2023
Eins og frægt varð féllust Zuckerberg og Musk á að mæta hvor öðrum í UFC-bardagabúri fyrir rúmri viku. Heimsbyggðin hefur eflaust talið að um einhverskonar grín væri að ræða en nú virðist allt benda til þess að auðkýfingunum sé full alvara og að undirbúningur sé í fullum gangi.
Telja margir að ef af verði þá verði um að ræða einhvern stærsta bardaga sögunnar þegar kemur að áhorfi og tekjum.