Hrönn Sigurðardóttir, atvinnumaður í Ólympíufitness og eigandi BeFit Iceland, er látin 44 ára gömul eftir erfiða baráttu við krabbamein.
Hún greindist með mjög sjaldgæft krabbamein í maí í fyrra. Hrönn barðist fram á síðustu stundu, hún flaug til Spánar fyrir rúmlega viku til að gangast undir krabbameinsmeðferð.
Hrönn steig fram í viðtali við DV um miðjan júní þar sem hún lýsti því hversu seint og illa tókst að greina veikindi hennar í heilbrigðiskerfinu hérlendis. Þrátt fyrir að útlitið væri dökkt að sögn lækna lét Hrönn ekki deigan síga í baráttu sinni og hélt út til Spánar fyrir rúmri viku þar sem hún undirgekkst meðferð við hinu sjaldgæfa krabbameini sem hrjáði hana.
Eiginmaður Hrannar, Sæmundur Bæringsson, tilkynnti andlát hennar á Facebook í morgun:
„Ástkær eiginkona mín Hrönn Sigurðardóttir er látin einungis 44 ára gömul eftir gríðarlega erfiða baráttu við illvígt krabbamein. Hún barðist eins og ljón fram á síðustu stundu eins og henni var einni lagið en gat ekki meir.“
DV sendir fjölskyldu og vinum Hrannar innilegar samúðarkveðjur.