Hjónin Chrissy Teigen, fyrirsæta og matarbókahöfundur, og tónlistarmaðurinn John Legend, hafa eignast fjórða barnið.
Sonurinn,Wren Alexander Stephens, sem kom í heiminn 19. júní fæddist með aðstoð staðgöngumóður.
Teigen greinir frá gleðitíðindunum í hjartnæmri færslu á Instagram, en aðeins eru fimm mánuðir liðnir síðan Teigen átti dótturina Esti, sem tekin var með keisaraskurði. Eldri systkinin eru sonurinn Miles Theodore, sem er fjögurra ára, og dóttirin Luna Simone, sem er sjö ára.
Langaði alltaf í fjögur börn
Í færslunni segir Teigen að eins lengi og hana reki minni til hafi hana alltaf langað í fjögur börn. Sem barn hafi hún leikið sér með tvo leikfangaorma og tvær Kálgarðsdúkkur, haldið á þeim í fanginu meðan hún eldaði í barnaeldhúsinu sínu og horfði á sjónvarpsþættina um Alf.
Segir hún að eftir að þau hjónin misstu soninn Jack á meðgöngu hafi hún ekki getað hugsað sér að ganga með fleiri börn, þau hafi því haft samband við staðgöngumæðraþjónustu með þá hugmynd að ráða tvær konur til að ganga með eitt barn hver. „Eins konar tvíbura.“ Teigen átti þó eftir að skipta um skoðun og vildi reyna einu sinni enn, því fóru hjónin í IVF frjósemisferli.
„Sama ferli og gaf okkur Lunu og Miles. Við vorum svo heppin að ég varð ófrísk að dóttur okkar. Esti,“ segir Teigen. „Um svipað leyti kynntumst við yndislegu Alexöndru og ég vissi að hún var fullkomin samsvörun við okkur,“ segir Teigen um staðgöngumóðurina. Þegar Teigen var gengin nokkra mánuði kom í ljós að önnur tilraun tókst við staðgöngumæðrunina og Alexandra var ófrísk að syni þeirra hjóna.
„Fjölskyldur okkar urðu ein síðasta árið. Nokkrum mínútum fyrir miðnætti þann 19. Júní var ég viðstödd þegar fallegasta konan, vinkona mín, staðgöngumóðir okkar, fæddi son okkar í smávegis kaósi, en með krafti, gleði og ást.“ Þakkar hún staðgöngumóðurinni fyrir þessa einstöku gjöf sem hún hefur gefið þeim hjónum.