Hugarafl fagnaði 20 ára afmæli samtakanna á fimmtudag. Margir góðir gestir glöddust með Hugaraflsfélögum. Í tilefni dagsins var farið yfir sögu samtakanna, baráttuna, hugmyndafræði valdeflingar og bata sem notuð hefur verið í samtökunum frá fyrsta degi.
Rætt var um að Hugarafl hefur alla tíð lagt áherslu á að nýta reynslu notenda sem þekkja geðheilbrigðiskerfið á eigin skinni til að stuðla að breytingum á þjónustu við einstaklinga sem ganga í gegnum geðrænar áskoranir. Stemningin var einlæg og persónuleg, fundarstjóri minnti á að Hugarafl er lágþröskuldaúrræði í grasrótinni sem er opið öllum landsmönnum. Hugaraflskonur sáu um mögnuð tónlistaratriði á milli ræðubúta.
Willum Þór Þórsson ráðherra steig á stokk og fagnaði með gestum. Hann ræddi mikilvægi samtakanna í Íslensku samfélagi og hvatti Hugarafls fólk til dáða. Willum þakkaði Hugarafli áralanga þátttöku í stefnumótun og samstarf við ráðuneytið. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands steig einnig á stokk, hann ræddi mikilvægi gleðinnar og tjáði væntumþykju sína fyrir Hugarafli og öðrum samtökum. Hann ræddi mikilvægi þess að við fáum öll að sýna hvað í okkur býr og mikilvægt að hver og einn fái tækifæri til að gefa af sér.