Sigrún Mía, iðulegakölluð Mía, hefur þurft að ganga í gegnum margt þrátt fyrir að vera aðeins á þriðja ári. Hún fæddist með hjartagalla og á morgun mun hún gangast undir þriðju aðgerðina á sinni stuttu ævi. Faðir Míu, Kristófer Jón Kristófersson, segir að Mía sé samt ótrúlega hugrökk, en eftir morgundaginn horfir hún fram á möguleikann að eiga sér loksins nokkuð eðlilegt líf, og geta haldið í við jafnaldra sína. Föðursystir Míu hefur blásið til söfnunar til að létta fjölskyldunni lífið en þau hafa orðið fyrir gífurlegu tekjutapi vegna veikinda Míu.
„Við fengum að vita á meðgöngu að hún væri með hjartagalla, alvarlegan hjartagalla og þyrfti strax að fara í aðgerð,“ segir Kristófer. Fjölskyldan fór svo með sjúkraflugi til Svíþjóðar um sólarhring eftir að Mía kom í heiminn. Hjartagallinn hennar felst í því að það vantar hægri slegil í hjartað, en það telst sem alvarlegur hjartagalli og þarf að grípa hratt inn í slíkum tilvikum.
Mía hefur einnig þurft að fara í aðgerð á vélinda svo það hefur mikið verið lagt á ungt barnið. En nú er fjölskyldan aftur stödd í Svíþjóð og eftir aðgerðina á morgun gæti Mía séð fram á nýtt líf.
„Ef allt gengur eftir þá á þetta að vera seinasta inngripið núna“
Kristófer segir að síðustu ár hafi verið fjölskyldunni erfið. Móðir Míu þurfti að vera með hana heima fyrstu tvö ár lífs hennar og var um stöðuga umönnun að ræða. Sökum hjartagallans hefur súrefnismettun hjá Míu verið alltof lítil og hún því verið þreklaust og ekki getað haldið í við jafnaldra sína. Þessi mettun á að batna mikið eftir aðgerðina.
„Þá mun hún fyrst fara að öðlast líf“
Kristófer segir að Mía litla sé samt svo hugrökk að hann eiginlega furðar sig á því.
„Ég er bara ótrúlega gáttaður á því hvað þetta er venjulegt fyrir henni. En hún hefur reyndar aldrei þekkt neitt annað.“
Líkt og önnur börn þykir Míu þó skuggalegt að fara til læknis og þurfa að gangast undir blóðrannsóknir og anna slíkt. Hún sé þó meðvituð um hvað sé í gangi og sé orðin öllu vön. Mía á svo tvo eldri bræður. Annar þeirra er sjö ára en hinn er þriggja ára, en aðeins eru 11 mánuðir á milli hans og Míu. Hann fæddist í janúar og Mía kom svo í nóvember svo systkinin munu verða samferða á skólagöngu sinni, en slíkt er nú varla algengt.
Kristófer segir að eftir aðgerðina þurfi Mía að vera líklega í fjórar vikur á sjúkrahúsi og gæti farið svo að fjölskyldan verði í sex vikur úti, svo fólk getur rétt ímyndað sér tekjutapið sem fjölskyldan er að verða fyrir. Þar að auki hefur Mía ítrekað þurft að leggjast inn á sjúkrahús við jafnvel minnstu veikindi og þetta safnast allt saman og hafa foreldrar Míu mikið þurft að vera frá vinnu.
Vegna þessa hefur systir Kristófers og föðursystir Míu, Kolfinna, ákveðið að blása til söfnunar til að styðja fjölskylduna á þessum erfiðu tímum. Hún skrifaði færslu á Instagram þar sem hún hvetur fólkt til að veita stuðning, annað hvort með því að hugsa fallega til þeirra, eða ef fólk hefur tök á með því að styrkja þau.
„Litli bróðir minn og mágkona eru núna úti í Svíþjóð með dóttur sína hana Míu. Mía er einstök, fjörug og lífsglöð 2 ára stelpa. Mía fæddist með margþættan hjartagalla, hún fór í sína fyrstu hjartaaðgerð ekki orðin viku gömul úti í Svíþjóð og núna á miðvikudaginn fer hún í sína þriðju hjartaaðgerð. Þetta er erfið aðgerð og munu þau dvelja í minnst mánuð úti, því fylgja allskyns fjárútlát sem eru krefjandi fyrir unga fimm manna fjölskyldu. Mig langaði því að setja inn póst og bjóða fólki að styrkja þau í þessu ferli, það er sennilega ekki hægt að ímynda sér hvernig það sé að vera í þessari stöðu, nema að hafa upplifað það sjálfur, en við getum í sameiningu minnkað álagið á þeim með því að leggja þeim lið fjárhagslega. Ef þið viljið hugsa fallega til hennar og þeirra þá er það líka vel þegið.“
Þeim sem vilja leggja söfnuninni lið er bent eftirfarandi upplýsingar:
Reikningsnúmer: 0370-26-014638
Kennitala: 110996-2339