Nýlega sendi fjölskylda nokkur í Ástralíu nágranna sínum bréf. Bréfið var handskrifað og væntanlega verið sett í bréfalúgu nágrannans. Bréfið var undirritað „Sarah, Wayne og börn“.
Í bréfinu kemur fram að fjölskyldan sé grænkerar (e. vegan) og óski eindregið eftir því að nágranninn loki glugganum hjá sér þegar hann eldi kjöt þar sem lyktin framkalli ógleði og slæmar tilfinningar hjá fjölskyldunni.
Svo virðist sem nágranni fjölskyldunnar hafi ekki kunnað sérstaklega að meta þessa sendingu og birti bréfið á Facebook og eins og við manninn mælt dreifðist það um heimsbyggðina.
Skiptar skoðanir eru meðal netverja um hversu sanngjörn ósk fjölskyldunnar er. Sum telja um forréttindahyggju að ræða hjá fjölskyldunni. Önnur segja að fjölskyldan ætti að flytja eða að nágranninn ætti að halda grillveislu við opna gluggann.
Sum hafa þó tekið upp hanskann fyrir fjölskylduna og benda á að bréfið sé kurteislegt. Spyrja þau hvort það sé ekki algjör óþarfi að bregðast við með rætnum athugasemdum og hvort nágranninn geti ekki einfaldlega sýnt fjölskyldunni þá tillitssemi að loka glugganum.
Hvað finnst lesendum? Er það til of mikils ætlast að biðja nágranna sinn að hafa gluggann lokaðan á meðan hann er að elda kjöt?