Nýlega sagði CNN frá nýlegri rannsókn sem gefur til kynna að djúpsteikt matvæli geti haft neikvæð áhrif á andlega heilsu þeirra sem leggja sér slíkt til munns.
Rannsóknarteymi í Hangzhou í Kína komst að þeirri niðurstöðu að tíð neysla á djúpsteiktum mat, sérstaklega kartöflum, geti aukið líkur á kvíða um tólf prósent og þunglyndi um sjö prósent. Þetta er sagt eiga sérstaklega við um yngri neytendur.
Sumir sérfræðingar í næringarfræði vilja þó meina að hér sé um bráðabirgðaniðurstöður að ræða og orsakasamhengið sé ekki enn fyllilega skýrt. Allt eins er talið líklegt að þau sem þjást nú þegar af kvíða eða þunglyndi (eða jafnvel báðum þessum fyrirbrigðum) leiti sér huggunar í djúpsteiktum mat.
Tæplega 141.000 manns tóku þátt í rannsókninni í upphafi sem stóð yfir í rúm ellefu ár. Þau sem greind voru með þunglyndi fyrstu tvö árin voru útilokuð frá frekari þátttöku. Að lokum voru, af þeim sem neyttu djúpsteikts matar, 8.294 þátttakendur greindir með kvíða og 12.375 með þunglyndi. Niðurstaðan var einnig sú að neysla djúpsteiktra kartafla yki líkur á þunglyndi um 2% umfram neyslu djúpsteikts hvíts kjöts.
Samkvæmt rannsókninni er það efnið akrýlamíð, sem myndast við djúpsteikingu, sem er helsti orsakavaldurinn þegar kemur að þessum tengslum djúpsteiktra matvæla og þunglyndis og kvíða.
Yu Zhang, vísindamaður við Zhejiang háskóla og einn úr rannsóknarteyminu, segir óþarft að fara á límingunum vegna rannsóknarinnar. Hann segir það hins vegar geta verið gagnlegt fyrir andlega heilsu fólks að draga úr neyslu djúpsteiktrar matvöru.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar er sérstaklega bent á að samkvæmt tölum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar(WHO) hafi tíðni þunglyndis og kvíða aukist á heimsvísu og talið sé að fimm prósent allra fullorðinna einstaklinga í heiminum þjáist af þunglyndi.