Tónlistarmaðurinn Jon Bon Jovi bregst við gagnrýni varðandi trúlofun sonar hans, Jake Bongiovi, og leikkonunnar Millie Bobby Brown.
Jake fór á skeljarnar í apríl en parið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að vera of ung til að trúlofast. Jake er 20 ára og Millie er 19 ára.
Bon Jovi hlustar ekki á gagnrýnisraddir og fagnar trúlofun sonar síns.
„Ég veit ekki hvort aldur skiptir máli,“ sagði hann aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af því að þau væru of ung. E! News greinir frá.
„Ef þú finnur réttan maka og þið vaxið saman, ég held að það myndi vera mitt ráð: Að vaxa saman er gáfulegt. Ég held að öll börnin mín hafa fundið fólkið sem þau telja sig geta vaxið með og við elskum þau öll,“ sagði hann í útvarpsþættinum Andy Cohen Live í gær.
Bon Jovi giftist æskuástinni sinni, Dorotheu Hurley, árið 1989. Þau eiga saman Stephanie, 29 ára, Jesse, 28 ára, Jake, 20 ára, og Romeo, 19 ára.
„Millie er yndisleg og fjölskylda hennar er virkilega frábær. Jake er mjög, mjög hamingjusamur,“ sagði söngvarinn.
Millie og Jake tilkynntu trúlofun sína þann 11. apríl síðastliðinn. Þau hafa verið saman um tveggja ára skeið.