Baráttumaðurinn Þorsteinn V. Einarsson hvetur karlmenn til að hætta að kalla samstarfskonur og konur sem þeir þekkja lítið sem ekkert „elskan“. Hann segir að það getur borið með sér yfirlætisfullan velvilja, þó svo að það hafi kannski ekki verið ásetningurinn.
„Það skiptir ekki máli þótt þér finnist þú ekki vera karlremba eða hafir hvorki illan né yfirlætisfullan ásetning í huga. Þetta snýr að valdatengslum og samhengi. Hvenær, hvers vegna, hvernig og hver segir og gerir hvað gagnvart hverjum?“ segir hann.
Þorsteinn er forsprakki samfélagshreyfingarinnar #Karlmennskan og hefur umsjón með vefmiðlinum og hlaðvarpinu Karlmennskan.
Hann útskýrir mál sitt frekar í nýrri færslu á Instagram-síðu Karlmennskunar.
Færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.
„Sumt sem við erum vön að sé vinalegt, kurteisi eða ekki „illa meint“ getur borið með sér yfirlæti. Yfirlætisfullan velvilja. Þetta er litað af karllægu gildismati þar sem konur eru kynþokkafull krútt, brothættar prinsessur, elskur, með svo góða nærveru. Þangað til þær benda þér á karlrembuna í þér.
Snarlega breytist þessi „elska“ í freka, stjórnsama, vafasama ljóta norn sem ekki er hægt að umgangast af því að hún beygir sig ekki undir kvenleikann sem þú (eða samfélagið) ætlast til af henni. Tekur ekki þátt í þjónandi hlutverki kvenleikans undir leikreglum ráðandi karlmennskunnar.
Að ávarpa samstarfskonur eða fjartengdar konur „elskan“ getur verið hluti af smættun og ögun kvenleika eftir yfirlæti karlmennskunnar. Leikrit sem karlar taka stundum upp án ásetnings um yfirlæti en getur verið hluti af fornaldarhlutverkum.
Það skiptir ekki máli þótt þér finnist þú ekki vera karlremba eða hafir hvorki illan né yfirlætisfullan ásetning í huga. Þetta snýr að valdatengslum og samhengi. Hvenær, hvers vegna, hvernig og hver segir og gerir hvað gagnvart hverjum?
Við megum stundum bara hlusta, viðurkenna vanþekkingu og ónæmni okkar og taka mark á því þegar okkur er bent á að það sé smættandi, yfirlætisfullt eða óþægilegt að vera snert eða ávörpuð sem „elskan“. Og jafnvel ígrundað, hvers vegna hef ég þörf til að koma öðruvísi fram við sumar konur en aðrar og aðra?“
Færslan hefur vakið jákvæða athygli á Instagram og hafa rúmlega 200 manns líkað við hana þegar greinin er skrifuð.
Nokkrar konur taka undir með orðum Þorsteins og segir ein: „[Karlkyns] kennarar í iðngreinum mættu svo innilega taka þetta til sín. Tjah, eða ávarpa alla svona, ekki bara [kvenkyns], fyrst þeir hafa svona mikla þörf til þess.“
View this post on Instagram