Undanfarna mánuði hafa verið háværar sögusagnir um að Kardashian-Jenner systur myndu ekki fá boðskort á Met Gala í ár. Margir tískusérfræðingar og dægurmálaspekúlantar greindu frá því að raunveruleikastjörnunum yrði líklegast ekki boðið í ár og að Kardashian-Jenner gullöldinni væri að ljúka.
Kim Kardashian, Kendall Jenner og Kylie Jenner kváðu niður þennan þráláta orðróm í gær fyrir fullt og allt þegar þær mættu og stilltu sér saman upp á rauða dreglinum.
Met Gala er einn stærsti tískuviðburður heims og hafa systurnar mætt undanfarin ár. Kim fékk fyrsta boðskortið 2014 og yngri systur hennar, Kendall og Kylie, fengu það nokkrum árum síðar.
En það var ekki fyrr en árið 2022 sem öllum systrunum og móður þeirra, Kris Jenner, var boðið. En þetta var í fyrsta sinn sem Khloé og Kourtney Kardashian hafði verið boðið. Þeim var ekki boðið í ár.
Kim klæddist einstökum perlukjól frá Schiaparelli. Kylie var í rauðum Haider Ackermann kjól og Kendall Jenner var í samfesting og skóm frá Marc Jacobs.