fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Segir kynjaskipta áfengismeðferð nauðsynlega fyrir konur – Kynferðisleg áreitni þekktur vandi í SÁÁ og AA

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 1. maí 2023 14:30

Kristín I. Pálsdóttir. Mynd: Dagur Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega heyrði blaðamaður óþægilegar sögur af framgöngu reyndra karlkynsfélaga í AA-samtökunum sem leita eftir kynnum við ungar stúlkur sem eru nýkomnar úr meðferð. Einnig hafa konur kvartað undan kynferðislegri áreitni í áfengismeðferð hjá SÁÁ. Þetta er vandi sem hvorki er ástæða til að blása upp né gera lítið úr. Umfang vandans er óljóst en ljóst er að hið svokallaða 13. spor AA-samtakanna, sem er í rauninni ekki til nema sem slanguryrði meðal sumra AA-félaga, er óæskilegt spor að feta. Það er almennt álitið óheppilegt að fólk sem er að reyna að ná bata frá fíkn dragi sig saman kynferðislega, hvort sem það er í áfengismeðferð eða á AA-fundum. Ennþá óæskilegra er þó ef mikill valdamunur er á milli fólksins sem í hlut á.

En hversu góð er AA-hugmyndafræðin, sem byggir á 12 reynslusporum, almennt fyrir konur? Sporin eiga upptök sína í kristilegumr bræðralagshópum, það voru karlmenn sem skrifuðu þau niður og mótuðu þann grunn sem mikill meirihluti viðurkenndra meðferðarúrræða fyrir fíkla í bata byggjast á, með lykilritinu AA-bókinni. En gamla AA-hugmyndafræðin hefur orðið fyrir vaxandi gagnrýni undanfarin ár, meðal annars fyrir það að hún henti síður konum en körlum.

Til að ræða þetta hafði DV samband við Kristínu I. Pálsdóttur, framkvæmdastjóra og talskonu Rótarinnar, félags um velferð og lífsgæði kvenna, sem stofnað var árið 2013. Rótin berst fyrir kynjaskiptri áfengismeðferð og mælir eindregið með því að konu sæki kvennafundi, en ekki kynjablandaða fundi, í AA-samtökunum.

Heilasjúkdómur eða áfallasaga

„Ég hætti sjálf að drekka árið 2007, fór í meðferð hjá SÁÁ og gerði bara það sem mér var sagt að gera, þar á meðal að sækja AA-fundi,“ segir Kristín sem fyrir löngu er hætt að sækja AA-fundi. „Þetta var að mörgu leyti erfitt fyrir mig af þar sem ég er ekki trúuð manneskja og í grunninn eru AA-samtökin trúarleg. Þetta eru ekki trúarbrögð samt, ekki þannig að þú eigi að trúa á einhvern ákveðinn guð, en þetta er samt sprottið af kristilegum bræðralagshreyfingum og ber þess mjög merki. Auk þess er þetta karlahreyfing og ber þess líka mikil merki. Síðan er það þetta element að í reynslusporunum 12 áttu að gefa frá þér allt vald og tengjast æðri mætti. Það er lausnin, að tengjast einhverju þér æðra. Þetta er ágætt fyrir fólk sem hefur haft vald og beitt valdi, að gefa valdið frá sér. Fyrir valdalausar konur er þetta síður fýsilegt. Það eru frekar karlar en konur sem hafa verið í sporum valdbeitenda og voru AA-samtökin upphaflega stofnuð fyrir karla. Starfið er síðan byggt á þessari bók, AA-bókinni, sem var skrifuð í kringum 1939. Þetta er inspírandi bók fyrir marga og allt í lagi með það en þetta skýringarmódel sem fræðin byggja á, heilasjúkdómsmódelið, þar sem fullyrt er að þú sért bara fæddur með þennan sjúkdóm sem alkóhólisminn er, það er mjög takmarkandi.“

Kristín bendir á að þegar AA-bókin var skrifuð hafi lítil sem engin áfallafræði verið til, fyrir utan sálgreiningu, þar sem innra líf og lífeynsla var skoðuð. En það var ekki tekið inn í AA-bókina. „Bókin verður síðan eldri og eldri og hún breytist ekki – hún er trúarrit sem er undirstaðan í þessu starfi. Starfið byggir því á heilögu riti, eins og hver önnur trúarbrögð, og bókin verður sífellt fjarlægari þekkingunni sem er til í dag.

Kristín segir að það séu ásamt öðru undirliggjandi pólitískar ástæður fyrir því að heilasjúkdómsmódelið hafi orðið svona ráðandi í meðferðarfræðunum. „Við sækjum þetta kerfi til Bandaríkjanna sem eru ekki velferðarsamfélag heldur mjög kapítalískt samfélag með mjög kapítalískt heilbrigðiskerfi. Þar sem velferðarkerfi á borð við það sem við þekkjum er ekki til staðar í Bandaríkjunum er mikilvægt að komast inn í heilbrigðishlutann á einkavædda sjúkrakerfinu, þar sem einhverjir peningar eru aflögu til rannsókna.“ Segir Kristín að þar liggi hluti af ástæðunni fyrir því hvað mikil áhersla hefur verið lögð á að alkóhólismi sé heilasjúkdómur. En það er ekki eina ástæðan: „Það fólst mikilvægt mannréttindaskref í því að viðurkenna alkóhólisma sem sjúkdóm á sínum tíma. Því þar með var þetta ekki lengur aumingjaskapur. En það eru til mörg önnur skýringarmódel en þau að alkóhólismi sé annaðhvort sjúkdómur eða aumingjaskapur. Í dag er viðurkennt og vitað að félagsleg tengsl hafa áhrif á þróun vímuefnavanda. Það er líka til staðar kynjamunur og stéttamunur. Einelti, ofbeldi og fátækt eru líka þættir sem hafa áhrif. Það er svo margt sem spilar inn í þetta sem ekki er gert ráð fyrir í þessu heilasjúkdómsmódeli. Þó að sagt sé í AA-bókinni að sjúkdómurinn sé líka félagslegur, andlegur og tilfinningalegur þá er svo mikil áhersla á þetta líffræðilega, að þetta sé ólæknandi heilasjúkdómur.“

Kristín bendir á að mikill samsláttur sé milli alkóhólisma og geðrænna vandamála. „Margt fólk sem er með geðrænan vanda og líður ekki vel uppgötvar að áfengi er alveg frábærlega kvíðastillandi. Síðan er það ávanabindandi.“ Hún segir að saga einstaklingsins hljóti að skipta máli við greiningu á vandanum. „Maður þarf að geta áttað sig á sögu sinni og skoðað sjálfan sig, af hverju er ég að nota þetta efni á skaðlegan hátt? Það eru margir sem nota vímuefni án þess að skaða sig á þeim en hér erum við að tala um fólk sem notar efni á skaðlegan hátt.“

Kristín segir að fíkn geti verið mjög flókið samspil áfalla, félagslegra tengsla og ávana. Hún bendir líka á að kenningin um að alkóhólismi sé heilasjúkdómur hafi ekki leitt af sér miklar breytingar og nýjungar í meðferðarstarfi og víst sé að enginn tauga- og heilasérfræðingur sé starfandi innan SÁÁ. Kenningin sé líka ekki vísindaleg heldur hafi yfir sér trúarlegt yfirbragð og sé umdeild.

Víðtæk rannsókn á heilsufari og félagslegum aðstæðum 17.000 þjónustuþega á heilbrigðisstofnun í Bandaríkjunum leiddi af sér hinn svokallaða ACE-kvarða. Hann byggir á tíu spurningum. „Því hærra sem þú skorar á ACE-kvarðanum þeim mun meiri áhættu ertu í varðandi fíkn en líka varðandi t.d. hjartasjúkdóma og krabbamein. Þetta eru spurningar um það sem kom fyrir okkur fyrir 18 ára aldur og hvaða áhrif það hefur haft á okkur. Þrjú ACE-stig þykir fremur lágt skor en strax við fjórða stigið fer hætta á að lenda í fíkn upp í 16 prósent. Sjö ACE-stig eru ávísun á alvarlega fíkn og sjálfsmorðshættu. Meðal spurninga á ACE-prófinu eru þessar: Varðstu fyrir kynferðisofbeldi sem barn? – Var einhver með geðrænan vanda á heimilinu? – Fór einhver á heimilinu í fangelsi? – Horfðir þú upp á ofbeldi á heimilinu? – Síðan var gerð heilsufarsrannsókn á þátttakendum.“

Áfallasögufræðunum hefur vaxið ásmegin innan meðferðarkerfisins hér á landi sem sýnir sig í fjölgun sálfræðinga sem starfa innan SÁÁ en ráðning þeirra mætti mikilli andstöðu í byrjun og varð að miklu hitamáli innan SÁÁ. Hins vegar er meðferðarstarfið borið uppi af áfengisráðgjöfum sem Kristín segir að hafi mjög litla menntun sem hafi upphaflega byggst fyrst og fremst á bókstaf AA-bókarinnar. Áhrif þeirra og réttindi innan meðferðarkerfisins séu óviðunandi með tilliti til lítillar menntunar. „Landlæknir og heilbrigðisráðherra hafa viðurkennt að það þurfi breyta þessu námi og ríkið þurfi að axla ábyrgð og stíga fram með heildstæða meðferðarstefnu.“

Að gangast við syndum sínum

Aðdragandi Rótarinnar voru fundahöld nokkurra kvenna innan SÁÁ. „En þar var mikil andstaða við okkur af því við vorum með nýjar hugmyndir. Þess vegna ákváðum við að stofna okkar eigið félag, Rótina. Við sem höfum tekið þátt í hinu svokallaða batasamfélagi vitum hvað þetta ferli getur verið erfitt fyrir konur. Þú átt að fara í gegnum sporin og svo kemur fjórða sporið og þá áttu að skrifa upp allar syndir þínar. Þetta er svo trúarlegt. Það er margt gott í svona samtökum eins og AA, ég er ekki með svarthvíta sýn á þau né dreg í efa að þau hjálpa mörgum. Það sem er gott í AA-samtökunum er þessi félagslegi þáttur. Fyrir fólk sem kannski er búið að loka öllum dyrum að baki sér er gott að geta leitað í félagsskap þar sem vel er tekið á móti þér. Þetta er líka fjölbreytt flóra því AA-fundir á höfuðborgarsvæðinu skipta hundruðum. Fundirnir eru mjög misjafnir. Sumir eru mjög íhaldssamir, þar er bara bókstafstrú. Sjálf sótti ég bara kvennafundi og við í Rótinni mælum ekki með því að ungar konur fari á kynjablandaða fundi enda sýna rannsóknir að það fellst meiri valdefling í því fyrir konur að vera á fundum með öðrum konum. Ég heillaðist líka af þessum flata og valdalausa strúktúr innan samtakanna. Hins vegar þá er vissulega valdamunur í AA-samtökunum þó að ekki sé augljós valdastrúktúr. Þarna eru allskonar valdatengsl, það eru stórstjörnur þarna og fólk sem er skemmtilegt í pontu. Þetta fólk hefur auðvitað meiri áhrif og kennivald en þeir sem minna ber á. AA-samtökin eru treg að horfast í augu við þetta og segja að innan þeirra séu allir jafnir en í reynd er valdamunur þegar betur er að gáð.“

Fíkn, ofbeldi og valdamunur

Kristín og Rótin tala fyrir kynjaskiptri áfengismeðferð og Kristín segir að það fyrirkomulag myndi falla undir hugtakið „Best Practice“, þ.e. bestu mögulegu aðferðir. Rökin fyrir þessu séu sterk: „Það eru margar ástæður fyrir því að við höfum hvatt til þess að tekið sér upp kynjaskipt kerfi. Ein af þeim er sú að margar konur sem koma til meðferðar hafa verið í ofbeldissamböndum og þurfa hvíld til að jafna sig og læra að standa með sjálfum sér. Margar hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í barnæsku, síðan lenda þær í einhverju á unglingsaldri og loks fara þær inn í ofbeldissambönd. Þá er þetta orðin löng saga sem tekur langan tíma að vinda ofan af.“

Kristín bendir á að í kynjablönduðu fyrirkomulagi geti konur lent í því að hitta ofbeldisgerendur sína í meðferð eða gerendur vinkvenna sinna, til dæmis. Hafa þurfi í huga að rannsóknir bendi til að um helmingur karlmanna sem komi til áfengismeðferðar hafi beitt ofbeldi í nánum samböndum og 70-80% kvenna sem komi í meðferð hafi orðið fyrir ofbeldi. Gallar á því fyrirkomulagi að hafa meðferð ekki kynjaskipta séu því augljósir.

Varðandi samdrátt milli fólks í meðferð eða í gegnum AA-fundi þá séu vissulega mörg dæmi um að fólk hafi kynnst á þeim vettvangi og myndað gott samband. Þegar augljós valdamunur sé hins vegar fyrir hendi sé rétt að vera á varðbergi. Valdamunurinn geti falist í miklum aldursmun, miklu lengri edrúgöngu annars aðilans og öðrum aðstöðumun.

„Við í Rótinni mælum með því að ungar konur sæki kvennafundi en síður blandaða fundi. Ég tel það vera mjög valdeflandi fyrir konur að vera á kvennafundum, en ungt fólk vill oft frekar blandaða fundi.“

Kristín segir að 13. sporið sé vel þekkt á Íslandi en stórt vandamál í Bandaríkjunum og hluti af því sé sá að dómstólar þar eigi til að dæma fólk til að sækja AA-fundi. Það sé raunar í andstöðu við hugmyndafræði samtakanna sem byggi á aðlöðun og ekki áróðri, að skylda fólk á fundi. Morð á konu í samtökunum hafi orðið tilefni að vakningu innan AA um að berjast gegn ofbeldi og áreitni innan samtakanna og eftir það hafi samtökin loksins gefið út leiðbeiningar vegna ofbeldis innan samtakanna.

Á Íslandi þekkir Kristín dæmi um að húsráðendur í húsnæði einnar AA-deildar í Reykjavík hafi bannað aðgang manns að húsinu vegna áreitni hans eftir fundi, var hann meðal annars að bjóða ungum stúlkum far þeim og áreita þær. „Margir voru á móti þessu banni og það varð töluvert uppnám út af því. AA-samtökin hafa lengi verið treg til að taka á svona málum,“ segir Kristín sem er fyrir löngu hætt að sækja AA-fundi, hún eigi erfitt með það þar sem hún sé mjög gagnrýnin á grundvallaratriði í starfi samtakanna. Hún vill hins vegar ítreka að AA-samtökin hafi sína kosti og hafi hjálpað mörgum. Félagslegi stuðningurinn sem fylgi þátttöku í AA-starfi sé helsti kostur samtakanna.

Fyrirgefningarofbeldi

Eitt er ónefnt í því sem Kristín og Rótin telja að ógni bata kvenna innan AA-samtakanna og í meðferð sem byggð er á 12-spora kerfinu. Það sem kallað er ýmist „fyrirgefningarofbeldi“ eða „fyrirgefningarkúgun.“ „Það er mikil áhersla á fyrirgefninguna og þetta getur farið út í öfgar. Undirliggjandi er sú hugmynd að þú getir ekki náð bata án þess að fyrirgefa einhverjum geranda. Vissulega er einstaka gerandi tilbúinn til að axla ábyrgð en ég þekki miklu fleiri dæmi um að slíkt ferli endi með algjöru niðurbroti. Það er óþarfi að fyrirgefa gerandanum eða blanda honum inn í batann. Fyrirgefningin er engin forsenda bata eins og oft er hamrað á.“ Kristín segir að það sé alveg hægt að sleppa því að fyrirgefa og batinn frá fíkn sé ekki háður fyrirgefningu á misgjörðum annarra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt
Fókus
Fyrir 2 dögum

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram
Fókus
Fyrir 3 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?