Hin 39 ára Loni Willison var í eina tíð mjög eftirsótt fyrirsæta og lifði sannkölluðu lúxuslífi. Eiginmaður hennar var Baywatch-stjarnan Jeremy Jackson og lífið framundan virtist bjart.
Í dag býr Loni hins vegar á götunni í Los Angeles eftir að hjónaband hennar fór í vaskinn og eftir að hún ánetjaðist fíkniefnum. Myndir af henni birtust á vef The Sun í morgun þar sem hún sést meðal annars gramsa í ruslatunnum.
Loni og Jeremy voru gift á árunum 2012 til 2014 en Jeremy þessi er einna best þekktur fyrir að hafa leikið Hoby Buchannon í Baywatch-þáttunum sálugu á árunum 1991 til 1999. Hoby var sonur Mitch Buchannon í þáttunum sem David Hasselhoff lék.
Loni var fitnessmódel á sínum tíma og sat meðal annars fyrir á forsíðum tímarita á milli þess sem hún þræddi rauða dregilinn með eiginmanni sínum, Jeremy.
Loni er sögð hafa ánetjast fíkniefnum og áfengi eftir skilnaðinn við Jeremy og mun hið hættulega efni metamfetamín hafa farið illa með hana. Er hún til dæmis búin að missa nokkrar tennur.
Samband hennar og Jeremy var stormasamt á sínum tíma og sakaði hún hann um að hafa beitt sig ofbeldi á heimili þeirra í vesturhluta Hollywood árið 2014.
Loni er sögð halda til á Santa Monica-svæðinu en fjöldi heimilislausra þar hefur fjölgað mjög á undanförnum árum.