Leikarinn og grínistinn Ray Romano, sem er hvað þekktastur fyrir fjölskylduþættina Everybody Loves Raymond, segist heppinn að vera á lífi.
Hann opnaði sig nýlega um bráð veikindi í viðtali. Leikarinn sagðist um árabil hafa glímt með of hátt kólesteról. Þetta hafi haft þær afleiðingar að að hann var kominn með yfir 90 prósent stíflu í kransæð.
„Ég var með of hátt kólesteról fyrir 20 árum og læknirinn minn sagði alltaf – hver vegna setjum við þig ekki á statín-lyf?,“ sagði Ray í nýlegum þætti af WTF með Marc Maron.
„Í öll skiptin svaraði ég – Leyfðu mér að redda þessu sjálfur.“
Ray hafi farið frá lækninum og reynt að taka mataræðið sitt í gegn og missa nokkur kíló, samkvæmt ráðleggingum læknisins. Hann hafi þrjóskast við í 16 ár, en að lokum þurfti hann að fara í þræðingu til að losna við stífluna.
„Ég var eiginlega heppinn að þeir fundu þetta,“ sagði Ray og tók fram að stíflan hafi verið í æð sem kallast stundum widow–maker-æðin.
Leikarinn tók fram að hann sé með forstig sykursýki og hafi hann átt erfitt með að passa upp á mataræðið sitt og nú þegar hann hugsar til baka hefði hann hreinlega átt að þiggja boð læknisins um að hefja lyfjatöku fyrir nærri tveimur áratugum síðan.