Lawson fjölskyldan virtist vera eins og hver önnur fjölskylda í dreifbýli Norður Karólínufylkis Bandaríkjanna árið 1929. Um var að ræða harðduglegt bændafólk sem vann myrkranna á milli enda flestar fjölskyldur þar um slóðir barnmargar og marga munna að metta.
Því átti enginn von á þeim hryllingi sem gerðist á jóladag árið 1929.
Barnamergð og fátækt
Charles og Fannie Manning gengu í hjónaband árið 1911 og 18 árum síðar áttu þau sjö börn á lífi en eitt hafði látist úr barnaveiki sex ára gamalt.
Charles starfaði sem landbúnaðarverkamaður á tóbaksekru á meðan að Fannie sá um börnin og með nurli og sparnaði hafði þeim loksins tekist að safna sér fyrir eigin húsnæði árið 1927. Það var þó varla upp á marga fiska, eins og sjá má á mynd, en fjölskyldan hafði í sig og á, sem var meira en mátti segja um marga á kreppuárunum.
En með herkjum þó.
Því þótti alveg stórfurðulegt þegar að fjölskyldufaðirinn Charles tók upp á því, örfáum dögum fyrir jól 1929, að krefjast þess að tekin yrði fjölskyldumynd.
Hin óvænta myndataka
Ljósmyndatæknin var enn tiltölulega ný á þessum árum og yfirleitt aðeins á færi efnafólks að láta ljósmynda sig.
Það var því fáheyrt að óbreyttur landbúnaðarverkamaður færi að splæsa í slíkan lúxus enda kostnaður við myndatökuna á pari við kostnað við mat til fleiri vikna.
Fannie konu hans fannst þetta illa farið með fé en lét til leiðast og fóru í næsta bæ, í sínu fínasta pússi, til myndatökunnar.
Charles hafði nefnilega einnig krafist þess að keypt yrði ný flík og nýir skór á hvert einasta barn, svo og nýr kjóll á Fannie, sem voru fjárútlát sem ekki nokkrum fátækum landbúnaðarverkamanni með sjö börn hefði komið sér til hugar.
En Charles hafði þessa kröfu einnig í gegn.
Um var að ræða Charles, 43 ára, Fannie, 37 ára og börn þeirra, Arthur, 19 ára, Marie, 16 ára, Carrie, 12 ára, Maybell, 7 ára, James, 4 ára, Raymond, 2 ára og Mary Lou, 4 mánaða. Gekk myndatakan vel.
Af hverju Charles krafðist þess að myndin yrði tekin er mönnum enn mikið umhugsunarefni í dag, tæpum 100 árum síðar.
Morðin
Á jóladag, 25. desember, aðeins örfáum dögum eftir töku myndarinnar, beið Charles eftir dætrum sínum, Carrie og Maybell, við hlöðu rétt hjá íbúðarhúsinu.
Hann vissi að þær voru í leið í jólaheimsókn til frænku sinnar og myndu ganga fram hjá hlöðunni. Þegar þær nálguðust skaut Charles báðar dætur sínar með haglabyssu en barði þær einnig í höfuðið með byssuskeftinu til að vera viss um að þær væru látnar.
Hann gekk því næst að íbúðarhúsinu þar sem Fannie kona hans stóð úti á verönd og skaut hana.
Marie, sem var inni ásamt litlu bræðrum sínum, James og Raymond, að taka nýbakaða köku úr ofninum, var fljót að átta sig á hvað var í gangi og reyndi í örvæntingu að finna felustað fyrir þau.
Hún náði að fela bræður sína og var sjálf að leita sér að skjóli þegar faðir hennar kom að henni og skaut hana til bana.
Hann fann fljótlega litlu drengina tvo og skaut þá sömuleiðis til bana.
Hann endaði morðæðið á að berja 4 mánaða dóttur sína, Mary Lou, til bana.
Charles gekk því næst út í nálægan skóg og virðist hafa gengið þar um hring eftir hring þar þar til rökkva tók.
Skaut hann þá sjálfan sig í höfuðið.
Skelfileg aðkoma
Eini fjölskyldumeðlimurinn sem lifði morðin af var elsta barn hjónanna, Arthur, en faðir hans hafði sent hann í tilgangslausa sendiferð kvöldið áður og var ekki von á honum heim fyrr en seint að kvöldi jóladags.
Lík fjölskyldumeðlimanna fundust rétt áður en Charles framdi sjálfsvígið. Það voru ættingjar sem höfðu komið til að óska fjölskyldunni gleðilegra jóla, sem fundu þau.
Í húsinu var enn ilmandi bökunarlykt en fjölskyldumeðlimir látnir og lágu þau öll í sömu stellingunni; liggjandi á bakinu með krosslagðar hendur yfir brjóst og stein undir höfðinu, líkt og kodda. Lágu þau öll hlið við hlið.
Lögreglumaður, sem kallaður hafði verið til, hljóp út í skóg þegar skothljóð heyrðist og fann þar Charles Lawson látinn og við hlið hann bréf, stílað á foreldra hans.
Stóru spurningarnar
Hvað hafði Charles Lawson gengið til? Hann var þekktur sem ástríkur fjölskyldufaðir sem aldrei skipti skapi, hvað þá að vitað hefði verið til þess að hann beitti ofbeldi. Hvernig gat þessi ljúfi maður reynst vera slíkt skrímsli? Fjölskyldan var auk þess engu verr stödd fjárhagslega en almennt var um ættingja þeirra, vini og nágranna.
Þetta eru spurningar sem enn er deilt um, næstum heilli öld síðar.
Almennt skiptist áhugafólk um glæpina í tvær fylkingar varðandi ástæðu morðanna:
-Charles hafði fengið höfuðhögg og orðið fyrir heilaskemmdum. Landbúnaðarstörf á þessum árum voru hættuleg, orðið vinnueftirlit ekki til, og líkur á að Charles hafi misst sjónar á raunveruleikanum við slys sem hann var fyrir við gröft á skurði nokkrum mánuðum áður. En hann hafði gert lítið úr högginu og sagst varla hafa fundið fyrir því.
Þetta er sú kenning sem fjölskylda hans hefur haldið sem fastast í í gegnum árin en við krufningu síðar kom ekkert í ljós sem benti til heilaskaða.
-Charles hafði barnað elstu dóttur sína, Marie, 16 ára og skotið alla fjölskylduna til að fela leyndarmálið að eilífu. Bróðurdóttir Charles, Stella, mun hafa staðfest að hún hafi heyrt slíkan orðróm og að Fannie hafi hótað manni sínum að opinbera gjörðir hans. Einnig mun Marie hafa sagt bestu vinkonu sinni, Ellu May, frá því að hún væri barnshafandi af völdum föður síns.
Var Charles að fela hið skelfilega sifjaspell? Hafði kannski sektarkenndin svipt hann vitinu?
Hring eftir hring eftir hring
Fótsporin í skóginum sýndu að Charles hafði gengið hring eftir hring svo klukkutímum skipti áður en hann skaut sig. Hvað var hann að hugsa á göngunni?
Það var ekki mikil hjálp í bréfinu til foreldra hans. Þar var aðeins að finna tvær hálfkláraðar setningar: Vandamál geta valdið….. og Það er engum að kenna, en….
En af hverju að myrða alla fjölskylduna í stað þess að fremja sjálfsvíg ef sektarkennd var um að kenna?
Og af hverju sendi Charles elsta barn sitt, Arthur, viljandi að heiman? Af hverju hlífði hann honum? Kannski vegna þess að sonur hans var stór og sterkur og hefði hugsanlega getað yfirbugað hann? Eða vildi Charles halda Arthur á lífi til að Lawson nafnið dæi ekki út?
Arthur lést ungur í bílslysi, aðeins 32 ára gamall, en lét eftir sig fjögur börn. Líf hans var þjakað sektarkennd yfir hafa lifað en móðir hans og systkini verið myrt.
Systkini Charles sáu sér leik á borði eftir morðin og breyttu húsinu í safn sem enn er starfandi.
Ljósmyndin?
En stærsta spurningin er og verður ljósmyndatakan.
Svo virðist sem Charles hafi verið mikið í mun að minningu fjölskyldunnar yrði haldið á lofti með ljósmynd og þar að auki lagt í mikinn kostnað við kaup á fatnaði fyrir myndatökuna.
Af hverju, munum við aldrei fá að vita en það breytir ekki að enn er brennandi áhugi á málinu og verður eflaust um ókomin ár.