Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar vinnur nú að skýrslu fyrir Dýraverndarsamband Íslands. Segir hann verkefnið virkilega áhugavert og skoða tölur við vinnuna eins og hann geri gjarnan.
„Og mér tókst að gera risastóra(!) uppgötvun sem ég held að hafi ekki komið áður fram. Í fyrsta sinn síðan Ísland var numið fyrir rúmum 1.000 árum, býr fleira fólk en sauðfé á Íslandi! Núna búa um 380 þúsund manneskjur á landinu en einungis 365 þúsund rollur “ segir Ágúst Ólafur í færslu á Facebook.
Hann segir kindurnar hafa haft yfirhönduna árið á undan upp á 16 þúsund. „Þegar ég var að fæðast voru rúmlega 800.000 kindur á Íslandi en einungis 220.000 manneskjur. Á þeim tíma voru erlendir ferðamenn einungis um 70 þúsund en eru nú yfir 2 milljónir,“ segir Ágúst Ólafur en hann er fæddur árið 1977.
„Á sama tíma og fjöldi erlendra ferðamanna hefur 30-faldast og fjöldi Íslendinga næstum tvöfaldast hefur sauðfé fækkað um helming. Eitthvað segir þetta um breyttar matarvenjur. Hingað til hafa alltaf búið fleiri rollur á Íslandi en fólk. En ekki lengur. Fréttirnar verða varla stærri “ segir Ágúst Ólafur.