Fjölskylda leikarans Tom Sizemore hefur gefið frá sér yfirlýsingu um ástand leikarans eftir að hann fékk heilablæðingu fyrir 10 dögum síðan.
Þar segir að það sé ekki talin nein batavon hjá leikaranum og sé fjölskyldan nú að taka ákvörðun um lífslokameðferð.
Leikarinn, sem var hvað helst þekktur fyrir hlutverk sín í myndum á borð við Saving Private Ryan, Black Hawk Down og Pearl Harbor, fékk heilablæðingu á heimili sínu í Los Angeles þann 18. febrúar og var í kjölfarið lagður inn á gjörgæslu þar sem hann hefur legið þungt haldinn.
„Læknar hafa tilkynnt fjölskyldu hans að það sé engin von og hafa ráðlagt þeim að taka ákvörðun um lífslokameðferð. Fjölskyldan er nú að taka ákvörðun um þá meðferð og verður önnur yfirlýsing gefin út á miðvikudag,“ sagði umboðsmaður leikarans í yfirlýsingu til fjölmiðla.
„Við óskum eftir að fjölskyldan fái frið á þessum erfiða tíma og þau vilja koma þökkum áleiðis fyrir hundruð skilaboða og stuðning og bænir sem hafa verið móttekin. Þetta hefur verið erfiður tími hjá þeim.“